*

Föstudagur, 27. desember 2013 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

Aníta Hinriksdóttir: „Stefni á að bæta mig meira"

Mynd: Nordic Photos

Fyrr í dag var frjálsíþróttakonan Aníta Hinriksdóttir valin íþróttamaður ársins hjá Sport.is. Aníta átti frábært ár þar sem hún vann til gullverðlauna á EM og HM ungmenna auk þess sem hún vann þrenn gull á Smáþjóðarleikunum í Lúxemborg. Aníta ræddi í dag við Sport.is um upphafið í hlaupunum, árangurinn á árinu sem er að líða og framtíðarmarkmiðin.

„Það er erfitt að segja. Við bættum við æfingarnar hjá mér og höfum verið að byggja þetta upp hægt og rólega,“ segir Aníta aðspurð um hvers vegna henni hafi gengið jafn vel og raun ber vitni á árinu sem er að líða. Eins og gefur að skilja eyðir Aníta miklum tíma í æfingar. „Ég er að æfa um það bil sjö sinnum í viku. Æfingarnar eru misjafnlega langar. Mestmegnis er ég að æfa hlaup en svo eru auðvitað líka teygjur og líkamsstyrkingar. Ég gæti trúað að ég hlaupi að meðaltali 50-60 kílómetra í æfingum á viku.“

Næst segir Aníta okkur frá því hvenær og hvernig hún byrjaði að æfa frjálsar íþróttir. „Mamma og systir hennar hafa verið mikið í hlaupum og svo var vinkona mín að æfa hlaup. Ég hafði þess vegna alltaf áhuga á þessu og hafði gaman af því að kíkja með þeim. Ég var svo 10 ára þegar ég byrjaði að æfa frjálsar íþróttir en þá var ég í öllum greinum. Nú er ég aðallega í hlaupinu,“ segir Aníta og bætir því við hvaða vegalengd sé í uppáhaldi. „800 metrar eru í uppáhaldi hjá mér. Mér finnst það passleg vegalengd sem hentar mér mjög vel.“

Aníta vann til gullverðlauna í 800 metra hlaupi á HM og EM ungmenna og þegar hún er spurð að því hvort hún hafi verið sigurviss fyrir hlaupin er hún hógværðin uppmáluð. „Ég veit það eiginlega ekki. Auðvitað var ég búinn að skoða hvaða tíma hinir keppendurnir hafi verið að ná og undirbúa mig eins og ég gat en það kom engu að síður aðeins á óvart þegar ég vann.“

Mikla athygli vakti þegar hún vann gullverðlaunin tvö, Aníta fékk mikla athygli í fjölmiðlum og veglega móttöku í Höfða. Hvernig fannst henni sú athygli? „Þetta var mikið fjör og gaman að fá svona móttökur.“

Eftir góðan árangur var Anítu boðið að keppa á Heimsmeistaramóti fullorðina en afþakkaði boðið. „Það var svo mikið að gera að ég gat það bara ekki. Auðvitað kitlaði það mig að taka þátt en í staðinn verður bara gaman að fara á Evrópumót fullorðina á næsta ári og vera þá bara enn nær þeim þegar að því kemur.“

Mynd: Nordic Photos

Besti tími Anítu í 800 metra hlaupi er 2:00.49, hún hyggst bæta þann tíma og komast nær þeim bestu í greininni. „Já, ég stefni hiklaust að því. Það er enn töluverður munur en ég hef fulla trú að ég geti nálgast þeirra tíma fljótlega. Ég fékk að bera mig saman við þær bestu á Demantamótinu sem ég fór á og það gekk ágætlega. Það var mjög gaman að fá að hitta alla þessa hlaupara.“

Þá var Aníta spurð að því hvernig hún ætlaði að bæta sig á árinu 2014 en þá verður nóg um að vera hjá henni. „Við höfum aukið við magnið af æfingum. Hlaupið meira og reynt að bæta nýjum æfingum við. Stærsta mótið á árinu verður Heimsmeistaramót 19 ára og yngri í Bandaríkjunum og ég stefni á að vera ofarlega þar. Svo verður auðvitað gaman að keppa á Evrópumeistaramóti fullorðina og svo er inninhússtímabilið framundan líka mjög spennandi.“

Að lokum ræddum við framtíð hennar í Sportinu, hversu langt hún ætli sér að ná og hvort hún sé farin að huga að Ólympíuleikunum árið 2016. „Ég stefni að því að verða eins góð og ég get orðið. Maður hefur vissar hugmyndir um hvaða tíma maður vill á endanum ná í hinum ýmsu vegalengdum en svo veit maður aldrei hvernig það mun ganga. Ólympíuleikarnir í Brasilíu 2016 eru mjög spennandi og það væri gaman að taka þátt í þeim. Ég er búin að ná lágmarkinu fyrir þá áður og ef mér gengur vel ætti ekki að vera vandamál að ná því aftur,“ segir frjálsíþróttadrottningin Aníta Hinriksdóttir að lokum.

Þorsteinn Haukur Harðarson færir hér Anítu verðlaunin fyrir hönd Sport.is Mynd: Heiða