*

Fimmtudagur, 5. júlí 2012 | Þorsteinn Haukur Harðarson | thorsteinn@sport.is | @thorsteinnhauku á Twitter

Pepsi-deild karla | Tíunda umferðin hefst í dag

Mynd: Einar Ásgeirsson

Tíunda umferðin í Pepsídeild karla hefst í kvöld þegar fimm leikir fara fram. Mikið er um áhugaverða leiki en nú þegar að deildin er rétt tæplega hálfnuð er deildin ennþá frekar jöfn. Það má því búast við hörkuleikjum í kvöld.

Grindavík, sem enn hefur ekki sigrað leik á Íslandsmótinu fær Valsmenn í heimsókn. Valsarar eru í áttunda sæti deildarinnar með 12 stig en Grindvíkingar eru á botninum með þrjú stig.

Breiðablik tekur á móti Keflavík í Kópavoginum. Blikar hafa verið á ágætis siglingu undanfarið og sitja sem stendur í fimmta sæti deildarinnar. Keflvíkingar hafa aðeins dalað eftir ágætis byrjun á mótinu og eru í áttunda sæti. Bæði lið gerðu jafntefli í seinustu umferð.

Í vesturbæ Reykjavíkur taka heimamenn í KR á móti Fylki. KR-ingar eru í öðru sæti deildarinnar með 19 stig, stigi á eftir toppliðið FH og getur komist á toppinn í bili hið minnsta en leikur FH í tíundu umferð frestast vegna þáttöku þeirra í Evrópukeppninni. Fylkismenn hafa verið á uppleið nýverið og fengið 7 stig af seinustu níu mögulegum eftir 8-0 skellinn gegn FH fyrir mánuði síðan. Það verður því væntanlega hart barist í kvöld.

Stjarnan gerir sér ferð austur fyrir fjall og sækir Selfyssinga heim. Stjarnan er sem stendur í þriðja sæti deildarinnar en Selfyssingar, sem ekki hafa unnið leik síðan í fjórðu umferð, sitja í tíunda sæti.

Lokaleikur kvöldsins er svo viðureign Fram og ÍA á Laugardalsvelli en bæði lið hafa átt í vandræðum undanfarið. Framarar hafa tapað sjö af fyrstu níu leikjum sínum í deildinni en liðinu var, eins og kunnugt er spáð góðu gengi í sumar. ÍA hóf mótið með glæsibrag og vann fyrstu fjóra leiki sína. Eftir það hefur leiðin heldur betur legið niður á við en liðið hefur tapað þremur leikjum og gert tvö jafntefli í seinustu fimm leikjum sínum. Bæði lið þurfa því nauðsynlega á sigri að halda í kvöld.

Leikir kvöldsins: 

Kl. 19:15 Grindavík – Valur
Kl. 19:15 Breiðablik – Keflaík
Kl. 19:15 KR – Fylkir
Kl. 19:15 Selfoss – Stjarnan
Kl. 20:00 Fram – ÍA