*

Föstudagur, 15. júní 2012 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

Pepsi-deild karla | Eyjamenn burstuðu ÍA | Stjarnan vann Val

Mynd: Eyjafréttir

Tveir leikir voru á dagskrá Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Óhætt er að segja að mikið fjör hafi verið í leikjunum tveimur en alls voru skoruð níu mörk. ÍBV gerði góða ferð upp á Akranes og vann þar heimamenn með fjórum mörkum gegn engu. Þá hafði Stjarnan betur gegn Val í fjörugum leik.

Skagamenn höfðu ekki tapað leik þegar þeir mættu ÍBV í en ÍBV hafði einungis unnið einn leik í deildinni. Þeir virðast þó greinilega vera komnir í gang því liðið valtaði hreinlega yfir ÍA í kvöld.  Hvorugu liðinu tókst reyndar að skora í fyrri hálfleiknum en í þeim síðari tóku Eyjamenn öll völd á vellinum og skoruðu fjögur mörk. Ian Jeffs hóf markaveisluna á 63. mínútu áður en Christian Steen Olsen bætti við marki þremur mínútum seinna. Olsen fullkomnaði svo þrennu sína með tveimur mörkum undir lok leiksins og 4-0 útisigur ÍBV því staðreynd.

ÍA 0-4 ÍBV
0-1 Ian Jeffs 63.mín.
0-2 Christian Steen Olsen 66.mín.
0-3 Christian Steen Olsen 87.mín.
0-4 Christian Steen Olsen 89.mín.

Það var mikið fjör í leik Stjörnunnar og Vals í kvöld. Alexander Scholz kom Stjörnumönnum á bragðið strax á sjöundu mínútu en Tryggvi Sveinn Bjarnason, leikmaður Stjörnunnar, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark stuttu síðar. Það tók hann einungis tíu mínútur að bæta fyrir mistökin en þá skoraði hann í rétt mark og kom heimamönnum í 2-1 áður en Alexander Scholz skoraði annað mark sitt og þriðja mark Stjörnunnar undir lok fyrri hálfleiksins. Fjörinu í fyrri hálfleik var þó ekki lokið því Guðjón Pétur Lýðsson minnkaði muninn fyrir Val skömmu fyrir leikhlé. Hvorugu liðinu tókst að bæta við mörkum í síðari hálfleik og Stjarnan vann á endanum góðan 3-2 sigur.

Stjarnan 3-2 Valur
1-0 Alexander Scholz 7.mín.
1-1 Tryggvi Sveinn Bjarnason 15.mín. (sjálfsmark)
2-1 Tryggvi Sveinn Bjarnason 26.mín.
3-1 Alexander Scholz 41.mín.
3-2 Guðjón Pétur Lýðsson 42.mín.