*

Fimmtudagur, 5. nóvember 2015 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

„Hvað er að ykkur? Eru þið í minnibolta? Þetta er óþolandi!“ – Plús og mínus úr auðveldum sigri Stjörnunnar

Justin-Marvin-Stjarnan

Mynd: Eyjólfur Garðarsson

Stjarnan tók á móti Grindavík í kvöld í Dominos deild karla. Liðin hafa háð marga stórfína hildi á síðustu árum. Liðin hafa átt ágætis byrjun í deildinni. Því var búist við góðri skemmtun í Ásgarði. Leikurinn varð hinsvegar fyrir ákveðnum vonbrigðum þar Stjarnan vann auðveldan sigur þar sem spennan var engin.

Stjarnan 87 – 64 Grindavík (23-22, 48-30, 69-48)

Grindavík var án Eric Wise sem tókst það afrek að fá leikbann eftir einungis einn leik í deildinni. Stjarnan fullskipuð en tapaði síðasta leik í deild gegn ÍR með slakri spilamennsku. Grindavík tapaði einnig óvænt gegn Snæfell á heimavelli í síðustu umferð. Bæði lið höfðu því mikið að sýna.

Fyrsti leikhluti var kaflaskiptur. Grindavík byrjaði betur og komst í 0-7. Þá komst Stjarnan í gírinn með 12-1 áhlaupi og héldu þeir forystu út leikhlutan þó naum hafi verið. Grindavík breyttist í Pál í öðrum leikhluta, því það var lok lok og læs og lokað fyrir Páli. Liðið var með fjögur stig á átta fyrstu mínútum leikhlutans leikhlutanum og Stjarnan seig framúr hægt en örugglega.

Heimamenn fóru frábærlega af stað í þriðja leikhluta og keyrðu þá endanlega yfir gestina frá Grindavík. Þeir sáu aldrei til sólar eftir það og bæði lið fóru hreinlega að bíða eftir að leikurinn kláraðist. Stjarnan hafði á endanum þægilegan sigur.

Hér að neðan má sjá plús og mínus úr leiknum

Plús

Samspil þeirra Justin Shouse og Marvins Valdimarssonar var til hreinnar fyrirmyndar. Fundu hvorn annan frábærlega og voru bestu menn Stjörnunnar í kvöld.

Stjarnan var ofboðslega öguð og skipulögð varnarlega. Skiptu vel á skrínum og gáfu lítinn tíma. Þeirra besti leikur varnarlega í vetur.

Hraðinn var keyrður í botn af Stjörununni og það hentaði Grindavík virkilega illa. Vel útfærður leikur að hálfu Hrafns.

Vel gert hjá Stjörnunni að koma til baka eftir tapið í síðasta deildarleik. Þurftu virkilega á þessum sigri að halda til að sjálfstraustið myndi ekki hníga. Sýndu virkilega hvað í þeim býr í dag.

Mínus

„Hvað er að ykkur? Eru þið í minnibolta? Þetta er óþolandi!“ eru orð kvöldsins en þau lét Jóhann Ólafsson þjálfari Grindavíkur flakka þegar hann lét sína menn heyra það í byrjun þriðja leikhluta, eftir skelfilega byrjun. Þetta kveikti örlítið í leikmönnum en ekki nægilega til að breyting yrði á.

Grindavík var ofboðslega hugmyndasnautt og óskipulagt í kvöld. Þeir réðu ekkert við aggresíva vörn Stjörnunnar og fundu engar leiðir. Sást best á lokasókn Grindavíkur í fyrri hálfleik, liðið tók leikhlé og setti upp sóknina þegar sjö sekúndur voru eftir. Einn maður fékk boltann keyrði í gegn vont skot svo Stjarnan fékk boltann og náðu auðveldum tvem stigum. Hvað mönnum gekk til í þessu leikhléi er lögreglumál, það hefur allavega ekki verið ræddur körfubolti svo mikið er víst.

Skotnýting Grindavíkur var skelfileg. Nýting undir 30% kann ekki góðri lukku að stýra og erfitt að finna lið sem vinna leiki með slíka nýtingu.

Ekki besti dagur Jóns Axels, hitti illa og lítið gekk. Hann er ungur og lærir af þessu, má ekki hengja haus þrátt fyrir einn slakan leik.

Frammistaða Grindavíkur var afspyrnu vond í dag og alls ekki til útflutnings. Spurning er hvort Eric Wise sé yfirburðarleikmaður, ef ekki er þetta lið ekki að fara að enda ofar en áttunda sæti.