*

Sunnudagur, 1. nóvember 2015 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

Stjarnan auðveldlega áfram í bikarnum gegn pirruðum ÍR-ingum – Plús og mínus.

Mynd: Karfan.is

Mynd: Karfan.is

Í annað skipti á fjórum dögum mættust lið Stjörnunnar og ÍR. Fyrr í vikunni sigraði ÍR á sínum heimavelli í Dominos deildinni 99-96 en í kvöld mættust liðin í Powerrade bikarkeppninni. Stjarnan hafði harma að hefna en liðið var langt frá sínu besta í tapleiknum í vikunni.

Stjarnan 93-66 ÍR (30-19, 59-36, 78-51) 

ÍR hélt uppteknum hætti í byrjun leiks frá liðinni viku og hafði yfirhöndina á fyrstu mínútunum. Um miðbik fyrsta leikhluta náði Stjarnan þó tíu stiga áhlaupi og náði góðri forystu sem þeir gáfu ekki eftir. Annar leikhluti var frábær hjá Stjörnunni, liðið gaf ekkert færi á sér í vörninni og sóknarleikurinn var skilvirkari. Stjarnan leiddi með 23 stigum í hálfleik og virtist ekkert koma í veg fyrir þægilegan sigur liðsins.

ÍR komst hvorki lönd né strönd í þriðja leikhluta. Stjarnan skellti í lás varnarlega og kom muninum í 27 stig. Forystuna gaf Stjarnan ekki frá sér en bæði lið spöruðu orkuna og leyfðu yngri leikmönnum að sprikla í síðasta leikhluta. Stjarnan er því komið áfram í 16 liða úrslit bikarkeppninnar.

Hér að neðan má sjá plúsa og mínusa úr þessum bikarleik.

Plús

Breiddin sem Stjarnan hefur fram yfir ÍR kom skýrt fram í kvöld. Stjarnan gat dreift mínútum án þess að það kæmi niður á spilamennskunni en mikil villuvandræði ÍR varð til þess að liðið varð undir lestinni í kvöld.

Stjarnan heldur áfram vegferð sinni að því að verja bikarmeistaratitilinn með þessum sigri. Liðið er sterkt og til alls líklegt.

Hrafn Kristjánsson var brjálaður útí sína menn eftir tapið gegn ÍR í vikunni og talaði um að leikmenn sínir hefðu ekki gert neitt af því sem sett var upp fyrir leikinn. Leikmenn Stjörnunnar svöruðu í kvöld, spiluðu frábærlega og virtust hafa bragðað á eggjakökunni hans Hrafns eins og hann orðaði það við Vísi eftir leikinn í vikunni.

Varnarleikur Stjörnunnar var framúrskarandi í dag á löngum köflum. Menn spiluðu saman sem lið og gáfu örfá færi af sér. Mörg stig ÍR komu úr erfiðum skotum sem erfitt var að verjast.

Marvin Valdimarsson og Zo Coleman voru bestu leikmann vallarins í dag. Það sannaðist einu sinni enn í kvöld að ef Marvin spilar vel þá er Stjarnan ekki að fara að tapa

Mínus

Báðir stóru menn ÍR, þeir  Trausti Eiríksson og Vilhjálmur Theodór voru komnir í villuvandræði strax í öðrum leikhluta. Auk þess er Jonathan Mitchell meiddur, því var ÍR virkilega þunnskipað undir körfunni og munaði það gríðarlega fyrir liðið.

Alltof mikil orka ÍR fór í pirring út í dómarana. Margir leikmenn ÍR komnir í villuvandræði í öðrum leikhluta og það fór óstjórnlega mikið í skapið á þeim. Á meðan fjarlægðist Stjarnan enn meira. Hefðu betur mátt einbeita sér að körfuboltanum.

ÍR er þar með úr leik í bikarkeppninni sem er að sjálfsögðu mikil vonbrigði fyrir liðið. Þeirra verkefni verður þá núna að halda sæti sínu í Dominos deildinni og geta einbeitt sér að því.

Gestirnir voru flatir varnarlega og hugmyndasnauðir sóknarlega. Lítil barátta og þeir voru alltof fljótir að gefa eftir og leggjast fyrir andstæðingum sínum.