*

Föstudagur, 30. október 2015 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

Göngutúr í garðinum hjá KR – Plús og mínus úr DHL-höllinni

Mynd: Þorsteinn Haukur

Mynd: Þorsteinn Haukur

Einn magnaðasti leikur íslensk körfubolta fór fram síðasta vor þegar KR og Njarðvík mættustu í oddaleik um sæti í úrslitaeinvígi tímabilsins. Þessi lið mættust einmitt í kvöld í DHL deildinni. Njarðvík átti harma að hefna en KR eru núverandi Íslandsmeistarar og verulega erfiðir viðureignar. Væntingarnar voru því að leikurinn yrði háspenna og allskyns fjör. Allar þessar væntingar fóru útum gluggan með stæl því KR var með tögl og haldir frá upphafi til enda.

KR 105-76 Njarðvík (29-22, 58-41, 88-64)

Pavel Ermolinskji og Helgi Magnússon voru ekki með KR í dag og í liði Njarðvíkur var Haukur Helgi Pálsson mættur. Því mátti búast við virkilega áhugaverðum leik. Heimamenn voru sterkari framan af hálfleik og leiddu, Njarðvík var þó ekki langt undan og gáfu lítið eftir. Í byrjun annars leikhluta náði KR góðri rispu og komst sextán stigum yfir. Þessa forystu gaf KR ekki eftir í fyrri hálfleik og leiddi með sautján stigum að honum loknum.

KR hélt áfram gönguferð sinni um almenningsgarðinn í seinni hálfleik, voru mun sterkari aðilinn. Þegar Njarðvík gerði sig líklegt til að afreka mætti Þórir Guðmundur Þorbjarnarson með 11 stig í röð og munurinn orðin nálægt þrjátíu stigum. Munurinn var þá orðinn of mikið og þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir Njarðvíkur þá var þetta dagur KR frá A til Ö.

Plús

KR var með 58 stig í fyrri hálfleik, án Pavels og Helga gegn Njarðvík. Frábærlega vel gert hjá þeim og þeir sýndu hrein gæði í þeim hálfleik.

Íslandsmeistararnir spiluðu eins og lið allan leikinn, voru margfalt betri en Njarðvík í þessum leik og litu virkilega vel út.

Marquise Simmons skilaði góðu dagsverki í dag, 24 stig og 9 fráköst. Langbesti leikmaður Njarðvíkur og í raun sá eini með lífsmarki á löngum köflum í liðinu.

Nokkrar gusur af gagnrýni hafa komið á síðustu vikum á Mike Craion. Sá svaraði með skrímslaleik, 30 stig. Njarðvík réð ekki baun við hann í málningunni.

Hinn sautján ára Þórir „Byssa“ Þorbjarnarson er rosaleg skytta, 70% nýting utan þriggja stiga línuna og fagnaði með því að setja byssuna í slíðrið. Setti ellefu stig í röð fyrir KR í þriðja leikhluta og staðfesti endanlega í kvöld að þarna er á ferðinni svakalega spennandi leikmaður.

Spámenn og konur fóru á fullt að spá Njarðvík sigri í kvöld vegna komu Hauks Helga. KR sendi allar þessar spár rakleiðis til föðurhúsana og gjörsamlega gekk frá Njarðvík í dag. Frammistaða sem við sjáum ekki á hverjum degi, allt að því fullkomin spilamennska.

Mínus

Njarðvík bara getur ekki, undir nokkrum kringumstæðum fengið á sig 88 stig í fyrstu þrem leikhlutunum ef þeir ætla að eiga einhvern séns að taka sigur. Varnarleikur liðsins var til hreinnar og háborinnar skammar, KR fann alltaf opin skot og labbaði ítrekað í gegnum vörnina.

Tapaðir boltar voru rándýrir fyrir gestina í dag. 22 tapaðir boltar í heildina og KR fékk alltof mörg einföld stig uppúr þeim.

Njarðvík átti mjög erfitt meða að finna Loga Gunnarsson í sókninni og var til að mynda einungis með fimm stig eftir þrjá leikhluta sem er svo langt frá hans bestu getu. Logi er alltof mikilvægur leikmaður fyrir Njarðvík og má liðið ekki við svona leikjum frá honum.

Það vantaði allan kraft, baráttu og stemmningu í Njarðvíkur liðið. KR tók mörg sóknarfráköst og vann alla lausa bolta á vellinum.

Heimsreisu farinn sem átti frábært tímabil með ÍR fyrir tvem árum Hjalti Friðriksson, átti virkilega slakan dag í dag. Hann hitti ekkert og lítið gekk. Á meira inni og við munum án efa fá að sjá það þegar lengra dregur á tímabil.


 

Viðtöl eftir leik:

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR

Björn Kristjánsson, leikmaður KR

Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Njarðvíkur