*

Fimmtudagur, 29. október 2015 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

Ævintýralegur sigur ÍR á Stjörnunni – Plús og mínus

Mynd: Karfan.is

Mynd: Karfan.is

Dominos deild karla er komin í fullt swing. Fjórða umferð fór af stað í kvöld með þremur leikjum, breiðhyltingarnar í ÍR  tóku á móti Stjörnunni í hörkuleik.

ÍR 96-93 Stjarnan (21-19, 47-49, 66-67)

Fyrsti leikhluti var í eigu heimamanna, ÍR náði strax forystu og hélt henni allt til loka leikhlutans og því mátti þakka fínni vörn og liðssókn. Stjarnan byrjaði mun betur í öðrum leikhluta og var ÍR ekki með stig á fyrstu fjórum mínútum leikhlutans. Þriggja stiga veisla Björgvins Hafþórs og Odds hélt ÍR þó á floti og kom í raun fyrir að Stjarnan komst ekki í meira en tveggja stiga mun fyrir hálfleik.

Stjarnan hélt áfram að vera skrefi á undan og komst mest í níu stiga forystu. Flottur lokasprettur heimamanna varð til þess að munurinn fyrir lokaleikhlutann var einungis eitt stig. ÍR kom á fullri siglingu í síðasta leikhlutann og náði strax yfirhöndinni og hélt henni til loka. ÍR var komið mest í ellefu stiga forystu en Stjarnan náði muninum heldur betur niður og bjó til smá spennu í lokin. Lokatölur 96-93 ÍR í vil, mjög stór sigur þeirra á sterku liði Stjörnunnar.

Hér að neðan má sjá plúsa og mínusa úr þessum leik.

Plús

Vilhjálmur Theodór Jónsson greip tækifæri sitt vel í kvöld í fjarveru Jonathan Mitchell undir körfunni. Hann reyndist Stjörnumönnum verulega erfiður og endaði með 14 stig og 8 fráköst.

Justin Shouse er svo mikill töframaður að það er ekki hægt. Getur búið til helling úr engu og var besti leikmaður Stjörnunnar í dag.

Allir leikmenn sem spiluðu hjá Stjörnunni í dag voru komnir með stig strax í fyrri hálfleik eða heilir níu leikmenn. Þetta sýnir hversu mikla breidd liðið hefur að geyma og skemmtilegt að sjá stigaskorið dreifast svona vel.

Virkilega sterkur sigur ÍR á Stjörnunni í Hertz hellinum. Þeir voru án erlenda leikmannsins og spiluðu flottan körfubolta. Liðið gaf það út fyrir tímabil að þeir ætluðu að gera heimavöllinn að óvinnandi vígi og það tókst í kvöld. Skotnýting liðsins var hreint mögnuð og erfitt að eiga við nokkur lið þegar allt fer ofan í.

Oddur Rúnar Kristjánsson átti tvær risa stórar þriggja stiga körfur um miðbik fjórða leikhluta. Kom ÍR í tveggja stafa forystu og slökkti í tilraunum Stjörnunnar. 27 stig á strákinn í kvöld og var besti leikmaður vallarins.

Síðast þegar undirritaður mætti í Seljaskóla setti hann mikið útá umgjörð ÍR og biðlaði til úrbóta. Þeir urðu heldur betur við þessum bónum og gott betur. Umgjörðin í kvöld til fyrirmyndar, vel gert ÍR.

Mínus

Varnarleikur Stjörnunnar hefur ekki verið nægilega sannfærandi í fyrstu leikjum tímabilsins. Hafa fengið á sig of mörg stig og vantað smá grimmd í liðið varnarlega. Fá á sig 96 stig í kvöld er langt frá því að vera ásættanlegt.

Marvin Valdimarsson var snemma í þriðja leikhluta kominn með fjórar villur og í mikil villuvandræði. Mikill missir fyrir Stjörnuna þegar Marvin þarf að sitja á bekknum á löngum köflum.

ÍR vantar aðfinnanlega alvöru leikstjórnanda sem vill hafa boltann í höndunum og stjórnað sóknarleiknum. Oddur Rúnar var í því hlutverki í kvöld og ekkert útá hann að setja en hann myndi líklega njóta sín betur í bakvarðarstöðunnni.

Þegar Stjarnan var sjö stigum undir í fjórða leikhluta fékk Tómas Þórður dæmda á sig tæknivillu fyrir kjaftbrúk. Svo í staðin fyrir að minnka muninn setti ÍR fjögur stig úr næstu sókn og komst vel framúr. Virkilega klaufalegt hjá kauða sem átti þó góðan leik.

Al’lonzo Coleman var ævintýralega slakur á löngum köflum í þessum leik, endaði með 14 stig og fimm tapaða bolta. Virkileg ólíkur sjálfum sér.