*

Fimmtudagur, 26. mars 2015 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

Sópurinn tekin fram hjá KR – Grindavík komin í sumarfrí

Mynd: Eyjólfur Garðarsson

Þriðji leikur í einvígi KR og Grindavíkur fór fram í vesturbæ Reykjavíkur í kvöld. Það var að duga eða drepast fyrir gestina sem með tapi gátu farið í sumarfrí á kostnað KR sem færu áfram í aðra umferð. Eftir jafnan fyrri hálfleik náði KR að slíta Grindavík frá sér og sigruðu að lokum nokkuð þægilega og eru komnir í undanúrslit

KR 94- 80 Grindavík (22-22, 48-42, 73-62)

KR mættu óvænt nokkuð vængbrottnir til leiks þar sem leikstjórnandi þeirra Pavel Ermolinskij var ekki með vegna meiðsla. Grindavík voru á síðasta séns fyrir leikinn og urðu að vinna til halda lífi í keppninni. Því var það vatn á myllu Grindavíkur að Pavel var á bekknum í hversdagsklæðunum.

Leikurinn byrjaði með látum, Grindavík reyndu að keyra upp hraðann á leiknum og KR átti ögn erfitt með að halda í við hann. Bæði lið fóru að leita mikið á stóru mennina Rodney Alexander og Mike Craion. Helgi Már var með læti í byrjun og setti tvær þriggja stiga körfur á upphafsmínútunum. Ákefðin var meiri hjá gestunum og voru þeir líklegri í upphafi. Jón Axel var frábær hjá Grindavík í byrjun og var illviðráðanlegur. Varnarleikur liðanna hertist aðeins í lok fyrsta leikhlutans og datt þá niður skotnýtingin. Helgi Már var afgerandi bestur í liði KR þar sem hann var á eldi sóknarlega og dreif lið sitt áfram varnarlega. Grindavík var betri aðilinn en KR tókst samt að halda leiknum jöfnum eftir fyrsta leikhlutann.

Varnarleikur liðanna var í algjöru aukahlutverki í öðrum leikhluta. Craion var að éta Rodney undir körfunni en var samt sem áður að nýta skotin sín illa. Varnarleikur KR var arfavondur í byrjun annars leikhluta en Grindavík var óskynsamt að nýta sóknir sínar ekki betur. Liðin voru jöfn á nánast öllum tölum og skiptust á að vera yfir. Oddur Rúnar átti góða innkomu í lið gestanna í sóknarleiknum og lét bróðir sinn Björn Kristjánsson leikmann KR hafa vel fyrir hlutunum. Hiti fór að færast í leikinn og réðu dómarar leiksins ekki nægilega vel við hann í fyrri hálfleik. KR fór að keyra mikið á Rodney Alexander sem var afskaplega hægur varnarlega og var skelfilegur þegar hann átti að skipta á screenum við liðsfélaga sína. Hann var með 13 stig og níu fráköst í fyrri hálfleik en frammistaða hans jafnaðist út vegna skelfilegs varnarleiks hans. Þriggja stiga körfur frá Birni og Helga Má kom KR sex stigum fyrir lok hálfleiksins sem var mesta forysta liðs í hálfleiknum.

Mynd: Eyjólfur Garðarsson

Grindavík byrjaði af krafti seinni hálfleikinn með fyrstu fimm stigin. Darri Hilmarsson ákvað þá að svara með næstu fimm stigum og KR því en með yfirhöndina. Svörin sem KR hafði virtist fara stórkostlega í skapið á suðurnesjamönnum sem fengu á sig tvær tæknivilliur á sömu mínútunni og eins og hendi væri veifað var munurinn tólf stig. Vörn Grindavíkur var ekki húsum hæf í þriðja leikhluta þar sem þeir hleyptu KR ítrekað auðveldlega í auðveld skot og forysta KR orðin ansi þægileg. Ólafur Ólafsson var eini maðurinn í liði Grindavíkur með lífsmarki og sem dæmi varði hann boltann tvisvar úr höndum Craion. Í raun var það einungis brösulegur varnarleikur KR sem kom í veg fyrir að þeir kláruðu ekki leikinn í leikhlutanum en munurinn var einungis ellefu stig fyrir loka leikhlutann.

Nú var að duga eða drepast fyrir Grindavík sem varð að koma sér í leikinn ef þeir ætluðu ekki að detta úr leik. Spennustigið var hátt og gekk lítið hjá báðum liðum. Sóknarleikur Grindavíkur var arfaslakur og virtust þeir vera úrvinda eftir að hafa keyrt hratt á KR í byrjun. KR voru skynsamir og fóru að ráða hraða leiksins sem kom þeim vel. Helgi Már Magnússon átti tvær þriggja stiga körfur og átti frábæran leik. Það var alveg sama hvað Grindavík reyndi að svara leiknum, gæðin, ákveðnin og skynsemin var öll KR megin. Það var því KR sem sigraði þennan leik 94-80.

KR eru því komnir áfram í undanúrslit og fá kærkomið frí fyrir næstu leiki. Talandi um frí, Grindavík eru komnir í mjög óeftirsótt sumarfrí eftir að hafa verið sópað út í einvíginu hér gegn KR. Lið Grindavíkur var spáð öðru sætinum í deildinni og því verður ekki annað sagt en að þetta tímabil er eitthvað sem þeir vilja gleyma sem allra fyrst. Það verður þó ekki tekið af Grindavík að þeir sýndu baráttu og létu KR hafa fyrir hlutunum í einvíginu en gæðin voru bara ekki til staðar.

Michael Craion var í skrímslaham í liði KR með 38 stig og 12 fráköst. einnig var Helgi Már Magnússon frábær með 22 stig og 10 fráköst. KR liðið sýndi mikla liðsheild í kvöld og verða að teljast ansi líklegir í þeim einvígum sem framundan eru. Hjá gestunum var Rodney Alexander stigahæstur með 17 stig og 17 fráköst en hjálpaði liðinu ákaflega lítið í varnarleiknum og átti heilt yfir slakan leik. Aðrir leikmenn Grindavíkur spiluðu undir getu.

Viðtal við Brynjar Þór Björnsson leikmann KR eftir leik

Viðtal við Sverri Þór Sverrisson þjálfara Grindavíkur eftir leik

KR: Michael Craion 38/12 fráköst/4 varin skot, Helgi Már Magnússon 22/10 fráköst, Björn Kristjánsson 9/4 fráköst/10 stoðsendingar, Brynjar Þór Björnsson 9/5 stoðsendingar, Finnur Atli Magnússon 6/10 fráköst, Darri Hilmarsson 5/6 fráköst, Vilhjálmur Kári Jensson 3, Ingvaldur Magni Hafsteinsson 2, Darri Freyr Atlason 0, Þorgeir Kristinn Blöndal 0, Illugi Steingrímsson 0, Þórir Guðmundur Þorbjarnarsson 0.
Grindavík: Rodney Alexander 17/17 fráköst, Jón Axel Guðmundsson 14/11 fráköst/6 stoðsendingar, Þorleifur Ólafsson 13, Ólafur Ólafsson 13, Jóhann Árni Ólafsson 11/6 fráköst/5 stoðsendingar, Oddur Rúnar Kristjánsson 10, Þorsteinn Finnbogason 2, Björn Steinar Brynjólfsson 0, Ómar Örn Sævarsson 0, Hinrik Guðbjartsson 0, Hilmir Kristjánsson 0, Daníel Guðni Guðmundsson 0.