*

Fimmtudagur, 26. mars 2015 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

Njarðvík tók forystuna gegn Stjörnunni – Heimavöllurinn vegur þungt

Mynd: Eyjólfur Garðarsson

Mynd: Eyjólfur Garðarsson

Einvígi Njarðvíkur og Stjörnunnar í átta liða úrslitum ætlar að verða hin mesta skemmtun. Allir leikir hingað til hafa verið háspennuleikir og það var ekkert annað uppá teningnum í kvöld. Eftir að liðin höfðu margsinnis skipst á að hafa forystuna var það Njarðvík sem hafði sigurinn og eru komnir yfir í einvíginu.

Njarðvík-Stjarnan 92-86 (22-19, 19-17, 24-24, 27-26)

Heimamenn voru sterkari í fyrri hálfleik og tóku snemma forystuna. Leikurinn var þó jafn í byrjun annars leikhluta en Njarðvík voru sterkari aðilinn og fóru með fimm stiga forystu inní hálfleikinn. Baráttan og viljinn var mun meiri Njarðvíkur megin en sem dæmi tóku þeir tíu sóknarfráköst gegn einu hjá gestunum.

Rétt eins og í fyrri leikjum liðanna var harkan mikil og dómarar leiksins leyfðu leiknum að lifa framan af. Eins og hendi væri veifað ákvaðu þeir hinsvegar að þetta væri komið gott og hófu annan flautukonsert Beathovens sem fór í taugarnar á liðunum. Njarðvík fengu að halda sinni forystu lengi vel en Stjarnan hékk í þeim og voru þolinmóðir sem varð til þess að þeir jöfnuðu leikinn þegar einungis ein mínúta var eftir. Þá tók Njarðvík sig saman í andlitinu, náðu áhlaupi og kláruðu leikinn með sex stiga sigri. Stjarnan hafði engin svör og sátu eftir með sárt ennið og greinilegt að heimavöllurinn vegur þungt á lokamínútum þessara leikja.

Sögusagnir voru uppi fyrir leik um að Stefan Bonneau væri meiddur og gæti ekki beitt sér almennilega. Það virðist ekki hafa hrjáð honum því hann endaði með lítil 45 stig, tíu stoðsendingar og daðraði létt við þreföldu tvennuna með sex fráköst. Allavega ef honum tókst ekki að beita sér almennilega í þessum leik, þá myndi undirritaður gjarnan vilja verða vitni að því þegar hann beitir sér að fullu.

Njarðvík eru þar með komin yfir í einvíginu og geta tryggt sér áfram í undanúrslit með sigri í fjórða leiknum sem fram fer á sunnudaginn í Garðabæ. Liðin hafa sett gríðarlega mikla orku í þetta einvígi en fá ekki mikla pásu á milli leikja, því mun þetta einvígi líklega ráðast á endanum á því hvort liðið á meira bensín á tanknum á lokametrunum.

Mynd: Karfan.is

Mynd: Karfan.is

Tölfræði:

Njarðvík: Stefan Bonneau 45/6 fráköst/10 stoðsendingar, Mirko Stefán Virijevic 11/11 fráköst, Ágúst Orrason 9/6 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 9, Maciej Stanislav Baginski 5/4 fráköst, Logi Gunnarsson 5, Hjörtur Hrafn Einarsson 5/5 fráköst, Snorri Hrafnkelsson 3, Adam Eiður Ásgeirsson 0, Jón Arnór Sverrisson 0, Ragnar Helgi Friðriksson 0, Magnús Már Traustason 0.
Stjarnan: Jeremy Martez Atkinson 23/11 fráköst/5 stoðsendingar, Marvin Valdimarsson 16, Justin Shouse 13, Jón Orri Kristjánsson 11/6 fráköst, Daði Lár Jónsson 11, Dagur Kár Jónsson 8, Tómas Þórður Hilmarsson 2, Ágúst Angantýsson 2/4 fráköst, Elías Orri Gíslason 0, Brynjar Magnús Friðriksson 0, Sigurður Dagur Sturluson 0, Tómas Þórir Tómasson 0.
Dómarar: Leifur S. Gardarsson, Kristinn Óskarsson, Björgvin Rúnarsson