*

Mánudagur, 23. mars 2015 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

Keflavík og Tindastóll komin í góða stöðu – Sumarfrí framundan hjá Þór og Haukum?

Mynd. Víkurfréttir | VF.is

Mynd. Víkurfréttir | VF.is

Tveir leikir fóru fram í átta liða úrslitum Dominos deildar karla í kvöld. Línurnar eru farnar að skýrast í einvígunum og er ekki langt í að fjögur lið fari í hið óvinsæla sumarfrí. Keflavík og Tindastóll eru komin í 2-0 og þurfa Haukar og Þór að girða sig allhressilega í brók ef þeir ætla sér ekki að fara í snemmbúið sumarfrí.

Keflavík-Haukar 84-82 (16-14, 19-28, 20-15, 29-25)

Keflavík hafði núllstillt heimaleikjaréttinn í fyrsta leiknum þegar þeir sigruðu í Hafnarfirði. Haukar urðu því að bíta allhressilega frá sér í leik tvö sem fram fór í TM höllinni í Keflavík (áður Sláturhúsið og Toyota höllinn). Þeir mættu ákveðnari til leiks og virtust ætla að svara fyrir sig en Keflavík svöruðu fljótlega. Leikurinn þótti ekki sá fallegasti sem spilaður hafi verið en annað eins getur nú gerst þegar svo mikið er í húfi. Ótrúleg skotnýting Hauka í öðrum leikhluta og frábær varnarleikur þeirra kom þeim í sjö stiga forystu fyrir hálfleikinn. Þeir mættu sterkari til leik í seinni hálfleik og komust mest í tólf stiga forystu. Þrátt fyrir tilraunir heimamanna til að komast aftur inní leikinn hélt Haukar forystunni og virtust vera að ná sterkum útisigri þegar þeir komust sex stigum yfir þegar þrjár mínútur voru eftir. Þá slökuðu gestirnir fullmikið á og Keflavíkur hraðlestin fauk framúr þeim. Sveiflukenndasti leikmaður sem sést hefur Davon Usher var með síðustu þrettán stig Keflavíkur og eftir æsispennandi lokamínútur var það Keflavík sem hafði tveggja stiga sigur og varði því heimavöllinn. Keflavík eru því komnir 2-0 yfir í einvíginu og geta sent Hauka í sumarfrí með því að sigra þá á föstudaginn í Hafnarfirði. Haukar sem voru ákveðnir í að láta ekki sópa sér úr keppni eins og í fyrra þurfa heldur betur að spíta í og mæta til leik í þriðja leiknum. Ungu strákarnir í Haukum þurfa að sýna hvað í þeim býr en það má ekkert taka af Keflavík sem margir voru búnir að afskrifa fyrir einvígið. En það hlýtur bara að vera eitt að dauðasyndunum að afskrifa Keflavíkurliðið því þeir mæta alltaf, og þá meina ég alltaf til leiks í úrslitakeppnina.

Keflavík: Davon Usher 32/7 fráköst, Damon Johnson 17/8 fráköst/3 varin skot, Þröstur Leó Jóhannsson 10, Davíð Páll Hermannsson 7/7 fráköst/3 varin skot, Arnar Freyr Jónsson 5/6 fráköst, Reggie Dupree 3, Gunnar Einarsson 3, Eysteinn Bjarni Ævarsson 3, Andrés Kristleifsson 2, Valur Orri Valsson 2, Tryggvi Ólafsson 0, Hilmir Gauti Guðjónsson 0.
Haukar: Emil Barja 20/13 fráköst, Kári Jónsson 18/5 stoðsendingar/6 stolnir, Alex Francis 16/6 fráköst, Sigurður Þór Einarsson 8, Helgi Björn Einarsson 7, Kristinn Marinósson 5/6 fráköst, Haukur Óskarsson 5, Kristinn Jónasson 3, Hjálmar Stefánsson 0, Ívar Barja 0, Jón Ólafur Magnússon 0, Alex Óli Ívarsson 0.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Björgvin Rúnarsson, Davíð Tómas Tómasson

Mynd: Hilmar Þór

Mynd: Hilmar Þór

Þór Þ.-Tindastóll 85-96 (18-18, 15-28, 29-29, 23-21)

Tindastóll mættu til leiks í Þorlákshöfn í kvöld með 1-0 forystu í einvíginu. Heimavöllur Þórs hefur í gegnum tíðina verið mjög sterkur og ekki mörg sem mæta þangað og ná sigri. Gestirnir voru mun sterkari í upphafi leiksins og sýndu í raun bara það sem framundan var. Þeir komust strax í 3-11 og var verkefnið strax orðið óþarflega stórt fyrir Þór. Heimamenn náðu að jafna leikinn í lok leikhlutans en eftir það tók Tindastóll aftur öll völd á vellinum og gáfu það ekki eftir fyrr en í seinni hálfleik. Raunin var sú að munurinn var mest 23 stig í þriðja leikhluta og virtist Tindastóll vera að valta yfir heimamenn. Leikurinn snerist aftur í hendur Þórs og fór Grétar Ingi þar fremstur í flokki. Munurinn varð minnstur tvö stig Tindastól í hag en um miðbik fjórða leikhlutans fékk Darrin Govens sína fimmtu villu og fór af velli. Á þeim tímapunkti missti Þór dampinn og Tindastóll náði á endanum ellefu stiga sigri. Varnarleikur Tindastóls var til fyrirmyndar meirihluta leiksins, auk þess varð Þór undir í allri baráttu í leiknum. Tindastóll veigraði sér ekki við að kasta sér á eftir boltanum á meðan Þór gerði ekki meira en rétt teygja sig í hann. Sigur Tindastóls var því verðskuldaður og eru þeir nú komnir í 2-0 í viðureigninni, Þór þarf því að vinna þriðja leikinn á Sauðárkróki næsta föstudag. Tindastóll hefur einungis tapað einu sinni á þessu tímabili Síkinu, það því er ansi líklegt að leikmenn Þórs geti farið að skoða sólarlandaferðir, því sumarfríið virðist ekki vera langt undan.

Þór Þ.: Darrin Govens 25/5 fráköst, Grétar Ingi Erlendsson 19/9 fráköst, Tómas Heiðar Tómasson 17/7 fráköst, Emil Karel Einarsson 10, Nemanja Sovic 7, Baldur Þór Ragnarsson 6/4 fráköst/5 stoðsendingar, Oddur Ólafsson 1, Davíð Arnar Ágústsson 0, Halldór Garðar Hermannsson 0, Jón Jökull Þráinsson 0, Þorsteinn Már Ragnarsson 0, Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 0.
Tindastóll: Myron Dempsey 28/11 fráköst, Helgi Freyr Margeirsson 15, Darrel Keith Lewis 13/7 fráköst/5 stoðsendingar, Pétur Rúnar Birgisson 13, Helgi Rafn Viggósson 12/8 fráköst/5 stoðsendingar, Ingvi Rafn Ingvarsson 8, Svavar Atli Birgisson 5, Darrell Flake 2, Viðar Ágústsson 0, Sigurður Páll Stefánsson 0, Hannes Ingi Másson 0, Finnbogi Bjarnason 0.
Dómarar: Kristinn Óskarsson, Rögnvaldur Hreiðarsson, Ísak Ernir Kristinsson

Næstu leikir:
26.03. kl. 19:15 KR-Grindavík.
26.03. kl. 19:15 Njarðvík-Stjarnan.