*

Sunnudagur, 22. mars 2015 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

Stjarnan jafnaði einvígið gegn Njarðvík eftir spennuleik

Mynd: Eyjólfur Garðarsson

Annar leikur í rimmu Stjörnunnar og Njarðvík í átta liða úrsltum Dominos deildar karla fór fram í kvöld. Njarðvík leiddi einvígið 1-0 fyrir leikinn eftir sigur í háspennuleik í Njarðvík. Hjartatöflur verða líklega af skornum skammti í Garðabæ og Njarðvík næstu daga eftir síendurtekna spennuleiki uppá síðkastið. Það var akkurat það sem boðið var uppá kvöld, leikurinn hefði getað dottið báðu megin en Stjarnan hafði sigur eftir frábærar lokamínútur.

Stjarnan 89 – 86 Njarðvík (23-26, 40-43, 60-65)

Njarðvík mætti mun ákveðnari til leiks og komust strax í 6-0. Logi Gunnarsson átti sviðið hjá gestunum en hann var með tíu af fyrstu fjórtán stigum þeirra. Hinu megin var Jeremy Atkinson aðalmaðurinn með ellefu af fyrstu sextán stigum Stjörnunnar. Leikurinn var mjög hraður í upphafi og skiptust liðin á að keyra á hvort annað. Varnarleikur Njarðvíkur var góður þegar þeir fengu tíma til að stilla henni upp en það var ekki oft. Liðin skiptust á að vera með forystuna en flott þriggja stiga karfa Ragnars Friðrikssonar í lok fyrsta leikhlutans kom Njarðvík þrem stigum yfir 23-26.

Njarðvík lék mjög harða vörn frá byrjun og voru heimamenn ekki par sáttir við hvað þeir komust upp með mikið, fyrir vikið var pirringur þeirra mikill. Snorri Hrafnkelsson átti frábæra innkomu fyrir Njarðvík á báðum endum vallarins og munaði mikið um það. Skotnýting liðanna var frekar slök og sem dæmmi var Stefan Bonneau með fjögur stig þegar annar leikhluti var hálfnaður. Njarðvíkingar voru ívið sterkari og komust með níu stigum yfir eftir tvær þriggja stiga körfur frá Ólafi Helga, Stjarnan hleypti þeim aldrei langt undan og hefði meðal annars getað jafnað leikinn á lokasekúndum fyrri hálfleiksins. Þess í stað fór Njarðvík með þriggja stiga forystu inní hálfleikinn. Dagur Kár var ekki með sjálfum sér í fyrri hálfleik og var ekki með neitt stig, því áttu þeir hann alveg inni.

Stjarnan voru mun betri í upphafi seinni hálfleiks, þeir komust fjótlega átta stigum yfir og Njarðvík áttu engin svör. Í raun má segja að Njarðvík hafi fengið að smakka á eigin bragði því varnarleikur Stjörnunar var mun harðari í byrjun seinni hálfleiks. Óskynsemi í skotvali fór að sýna sig hjá gestunum og fyrir vikið var skotnýting þeirra slök. Við þetta tók Friðrík Ingi þjálfari Njarðvíkur leikhlé og messaði yfir sínum mönnum. Orð Friðriks hafa verið vel valin því næstu níu stig voru Njárðvíkur og þeir aftur komnir með yfirhöndina. Logi Gunnarsson átti frábæran leikhluta þar sem hann stal ítrekað boltanum og leiddi sitt lið. Þetta áhlaup Njarðvíkur var eins og blaut tuska í andlit Stjörnunnar því þeir virtust ekki finna taktinn næstu mínútur á eftir. Gestirnir héldu forystunni áfram og fóru með hana inní lokaleikhlutann.

Liðin héldu uppteknum hætti, baráttan var mikil og hitinn í húsinu fór hækkandi. Njarðvík byrjaði að tvöfalda á Atkinson sem finnur ekki liðsfélaga og það fór í skapið á kauða. Hann fékk að kæla sig aðeins á bekknum og þá varð munurinn sjö stig Njarðvík í vil. Dagur Kár skoraði sína fyrstu þriggja stiga körfu þegar sex mínútur voru eftir og munurinn var aftur einungis tvö stig og það var á hreinu að spennandi lokamínútur voru framundan. Þá var komið að þætti Justin Shouse, hann smellti tvem þriggja stiga körfum í andlit gestanna og eins og hendi væri veifað var leikurinn í höndum Stjörnunnar. Lokamínútan var háspenna, leikurinn hefði getað dottið báðu megin. Stefan Bonneau tók stór skot og hafði verið ansi kaldur að því og það breyttist ekki, hann hitti lítið. Eftir ævintýralegan þrist frá Ágústi Orrasyni og góða vítanýtingu Justin Shouse var munurinn þrjú stig fyrir loka sóknina. Þar barst boltinn til Maciej sem tók þriggja stiga skot en þar var Atkinson mættur og varði boltann útúr húsi og tryggði sigurinn 89-86.

Mynd : Vignir Örn Ágústsson

Mynd : Vignir Örn Ágústsson

Þar með er einvígið jafnt 1-1 og fer næsti leikur fram í Ljónagryfjunni, Njarðvík næstkomandi fimmtudagskvöld. Báðir leikirnir hingað til hafa verið stórkostleg skemmtun og algjörir háspennuleikir.

Í liði Stjörnunnar var Jeremy Atkinson manna bestur með 28 stig og 13 fráköst. Einnig var Justin Shouse góður með 23 stig en hann var sá leikmaður sem tók af skarið þegar mest þurfti. Logi Gunnarsson var yfirburðarmaður í liði Njarðvíkur með 27 stig og var hreinn leiðtogi. Stefan Bonneau var með 20 stig og 14 fráköst en tók mikið af vondum skotum og flæði sóknarleiksins stoppaði oft á honum.

Viðtal við Hrafn Kristjánsson þjálfara Stjörnunnar eftir leik

Viðtal við Loga Gunnarsson leikmann Njarðvíkur eftir leik