*

Fimmtudagur, 19. mars 2015 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

KR leiðir einvígið gegn Grindavík – bæði lið í öðrum gír

Mynd: Eyjólfur Garðarsson

Fyrir nærri ári síðan voru það KR og Grindavík sem öttu kappi um íslandsmeistaratitilinn í karlaflokki. Nú fá þessi lið að keppast í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Það var ekki áferða fallegur körfuboltinn sem var boðið uppá. KR voru mun sterkari í byrjun leiks og alveg fram að loka leikhlutanum. Þá mættu Grindavík til leiks en það var of lítið og seint og KR sigraði að lokum með sex stigum.

KR 71 – 65 Grindavík (20-13, 38-26, 55-40)

Það var full höll kennd við DHL sem tók á móti þessum sterku liðum. Spennustigið var hátt og allt leit út fyrir hörkuleik. Pavel var í búning hjá KR en hjá Grindavík var Ólafur Ólafsson ekki með en hann er að ná sér af lungnabólgu.

Heimamenn voru ögn betri í byrjun leiks og komust í 7-4, spennustigið var nokkuð hátt sem sást bersýnilega á vondri skotnýtingu í upphafi leiks. Munurinn var ekki mikill á milli liðanna en KR voru skrefinu framar. Michael Craion var með læti þegar hann varði þrjá bolta á fyrstu fimm mínútum leiksins. Varnarlega var leikur KR flottur í upphafi en lítið gekk hjá Grindavík sóknarlega. Flott sóknarrispa KR kom þeim í 20-11 og Grindavík komnir óþarflega langt aftur úr. Brynjar Þór var gríðarlega heitur í fyrsta leikhluta, með helming stiga KR eða tíu af tuttugu stigum.

Annar leikhluti var opnaður með tvem þriggja stiga skotum hjá KR og munurinn skyndilega orðin þrettán stig. Sóknarleikur Grindavíkur í leikhlutanum var átakanlegur, allar aðgerðir liðsins voru tilviljannakenndar og óákveðnar. Auk þess hittu gestirnir mjög illa úr þeim skotum sem þeir fengu. Jón Axel, Ómar Örn og Jóhann Árni fengu allir sína þriðju villu í leikhlutanum fyrir Grindavík og þurftu því að sitja á bekknum meira en þeir hefðu viljað. Varnarleikur Grindavíkur var fínn þeir komu KR í erfið skot en KR nýtti þau samt vel. Munurinn var mestur fjórtán stig 35-21 og var það einungis sóknarleik Grindavík að kenna, það var stundum eins og þeir vissu ekkert hvað þeir ætluðu sér að gera með boltann. KR voru ekki að spila svo góðan varnarleik að Grindavík ættu að vera einungis með þrettán stig í leikhlutanum. Það má með sanni segja að Grindavík hafi skapað sér sína eigin lukku í fyrrihálfleik. KR fóru með tólf stiga forystu í fyrri hálfleikinn en áttu bæði lið mikið inni.

Upphaf þriðja leikhluta var eins og sá annar endaði. KR voru mun ákveðnari í öllum sínum aðgerðum og jóku bilið strax í nítján stig. Sókarleikur Grindavíkur var ennþá úti á þekju og voru ekki að gera hlutina erfiða fyrir heimamenn. Jón Axel Guðmundsson fékk sína fjórðu villu um miðbik leikhlutans og fékk sér sæti á tréverkinu. Körfuboltinn sem var á boðstólnum í þessum leikhluta var ekki til útflutnings né eftirbreytni, allar aðgerðir einkenndust af tilviljun og heppni. Eftir þrjá leikhluta var Grindavík með fjörutíu stig sem er ekki vænlegt til árangurs. KR héldu því forystunni í fimmtán stigum fyrir loka fjórðunginn.

Mynd: Eyjólfur Garðarsson

Hiti fór að færast í leikinn í loka leikhlutanum og var nokkur pirringur hjá báðum liðum. KR hefur oftar enn einu sinni í vetur verið með góða forystu en settja svo á sjálfstýringu og vakna upp við það að þeir eru í þann mund að glutra niður forystunni. Þetta ævintýri endurtók sig í kvöld, fínt áhlaup Grindavíkur kom muninum niður í fimm stig og Craion fór útaf með fimm villur. Allir í blaðamannastúkunni voru búnir að afskrifa Grindavík í þriðja leikhluta en það er auðvitað galið að gera. Tveir stolnir boltar í röð hjá Birni Steinari, þriggja stiga skot frá Þorsteini Finnbogasyni og munurinn var tvö stig. Raunar gat Grindavík komist yfir en nýttu sér það ekki. Þá ákvað Helgi Már Magnússon að þetta væri nóg, setti sex stig í röð og munurinn aftur átta stig. Munurinn var svo fimm stig þegar þrjár mínútur voru eftir þegar Rodney Alexander braut klaufalega á sér og fékk óíþróttamannslega villu að auki. Við það varð hola Grindavíkur of djúp og KR fékk að nýta klukkuna vel á loka sekúndunum. Þrátt fyrir tilraunir Grindavíkur var það KR sem landaði sex stiga sigri og leiða einvígið því 1-0.

Hjá KR var Helgi Már sá sem steig upp og leiddi liðið til sigurs með 17 stig og átta fráköst. Stigahæstur var Brynjar Þór Björnsson með 19 stig en 16 af þeim voru í fyrri hálfleik. Craion var langt frá sínu besta í dag.

Rodney Alexander var allra öflugasti leikmaður Grindavíkur með 24 stig og 18 fráköst, en tölurnar gefa ekki alveg rétta mynd af hans frammistöðu. Flæðið í sóknarleik Grindavíkur stoppaði oft á honum auk þess sem hann tekur sextán skot. Aðrir leikmenn voru undir pari í dag hjá liðinu en það var helst Þorsteinn Finnbogason sem átti fína innkomu auk þess sem Þorleifur Ólafsson sýndi leiðtogahæfileika í lokaleikhlutanum.

Viðtal við Finn Frey Stefánsson þjálfara KR

Viðtal við Sverri Þór Sverrisson þjálfara Grindavíkur