*

Þriðjudagur, 7. ágúst 2012 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

Dominos-deildin | Helgi Már Magnússon verður spilandi þjálfari KR

Mynd: Solna

Vesturbæjarstórveldið KR leggur alltaf mikinn metnað í að fá innanbúðarmann til verks þegar ráðinn er þjálfari meistaraflokks karla í körfubolta. Frá því var greint á heimasíðu körfuknattleiksdeildar KR fyrr í dag að landsliðsmaðurinn Helgi Már Magnússon, sem fenginn var aftur til liðsins á dögunum eftir þriggja ára veru í atvinnumennsku í Svíþjóð, yrði spilandi þjálfari liðsins í vetur.

Þessar fregnir koma nokkuð eins og þruma úr heiðskíru lofti enda héldu flesti að hann yrði einungis leikmaður næstu árin hjá KR. Helgi, sem verður þrítugur síðar í þessum mánuði, þekkir vel til í Vesturbænum enda uppalinn KR-ingur og þaulreyndur leikmaður meistaraflokks félagsins. Hann mun þó ekki ráðast einn á verkefnið því Gunnar Sverrisson, sem áður þjálfaði meistaraflokk karla hjá ÍR, verður honum til aðstoðar og mun væntanlega stjórna liðinu þegar Helgi er að svitna á parketinu. Samningur þeirra félaga er til tveggja ára.

Haft er eftir Böðvari Guðjónssyni, formanni körfuknattleiksdeildar KR, á heimasíðu félagsins að mikil ánægja sé með ráðninguna og að Helgi hafi alltaf verið fyrsta val stjórnarinnar þegar leitað var að nýjum þjálfara eftir að leiðir KR og Hrafns Kristjánssonar skildu. „Þá vildum við fá innanbúðarmann í verkið og Helgi þekkir hvern krók og kima í DHL höllinni“ segir Böðvar Guðjónsson, formaður körfuknattleiksdeildar KR. „Það er líka gríðarlegur fengur í Gunnari sem aðstoðarþjálfara, en hann þekkir leikinn inn og út og fellur vel inn í KR fjölskylduna. “

Ég er mjög stemmdur fyrir vetrinum. Það er virkilega gaman að koma heim og fá tækifæri til að þjálfa þennan sterka hóp. KR er svakalega metnaðarfullur klúbbur sem sést best á allri umgjörð og stemmingu í kringum liðið, og með þennan hóp sem við erum með núna þá höfum við að sjálfsögðu sett stefnuna á alla þá titla sem í boði eru,“ segir Helgi Már Magnússon jafnframt að lokum í yfirlýsingunni sem birtist á heimasíðu KR í dag.