*

Sunnudagur, 15. júlí 2012 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

NBA | Jeremy Lin er á leiðinni til Houston | Knicks endurheimtu Raymond Felton

Mynd: Nordic Photos

Jeremy Lin, umtalaðasti leikmaðurinn í NBA-deildinni í körfuknattleik á síðustu leiktíð, verður að öllu óbreyttu leikmaður Houston Rockets næstu þrjú árin.  Forráðamenn New York Knicks hafa ákveðið að jafna ekki samningstilboð Rockets og gengu í gær frá leikmannaskiptum við Portland Trail Blazers sem færa þeim leikstjórnandann Raymond Felton.

Lin sló eftirminnilega í gegn með New York Knicks á síðustu leiktíð, hreinlega snarsnéri gengi liðsins eins og hendi væri veifað þegar hann loksins fékk tækifæri til að láta ljós sitt skína.  Knicks sömdu við Lin þegar Houston Rockets leystu hann undan samningi upp úr áramótunum, fáir sáu fyrir Öskubuskuævintýrið sem endurvakti trú New York-búa á körfuboltaliðinu sínu og fastlega var búist við því forráðamenn Knicks myndu nýta rétt sinn til að jafna öll samningstilboð sem Lin kynni að berast í sumar.  Houston bauð honum samning, sem Knicks-menn hugðust jafna, en forráðamenn Rockets breyttu þá tilboði sínu, í samráði við Lin að því er virðist, og Knicks ákváðu að eltast ekki frekar við leikstjórnandann knáa. Samningsjöfnun við Houston hefði þýtt að Knicks hefðu verið 17 milljón dollurum yfir launaþakinu eftir þrjú ár, en þá verður hin svokallaða lúxusskattlagning á umframlaun fimm dollarar á hvern einn dollar.

Knicks verða þó ekki í vanda staddir með leikstjórnandastöðuna á komandi leiktíð, töframaðurinn Jason Kidd og Spánverjinn Pablo Prigioni hafa bæst í hópinn og í gær var gengið frá skiptisamningi við Portland sem skilar Raymond Felton til New York á ný.  Felton lék með Knicks við dúndrandi undirtektir fyrir tveimur árum en var fórnað í skiptisamningnum sem skilaði Carmelo Anthony til Knicks.  Annar fyrrverandi Knicksari, Kurt Thomas, fylgir reyndar með í kaupunum, en Knicks létu í staðinn Jarred Jeffries og aukaleikarann Dan Gadzuric.