*

Laugardagur, 14. júlí 2012 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

NBA | Houston losar sig við Scola í þeirri von að landa Dwight Howard

Mynd: Nordic Photos

Forráðamenn NBA-liðsins Houson Rockets hafa síður en svo gefið upp von um að landa stjörnumiðherjanum Dwight Howard sem vill ólmur komast frá Orlando og hafa leyst argentíska kraftframherjann Luis Scola undan samning til að skapa meira rými undir launaþakinu. Howard er þó ekki ginkeyptur fyrir því að flytja til Houston.

Forráðamenn Rockets fylgdust áhugasamir með tilhugalífi Dwight Howard og Brooklyn Nets, lifðu í voninni um að dansinn skilaði litlu og þegar sú varð raunin helltu þeir sér út í tilboðsgerð og þreifingar af fullum krafti.  Rockets héldu þeim möguleika opnum að koma að hugsanlegum flutningi Howards til LA Lakers, hefðu þá komið inn í þau skipti sem þriðja lið og fengið til liðs við sig Lakers-miðherjann Andrew Bynum, en þegar Steve Nash þekktist boð Lakers á dögunum varð ljóst að Howard yrði fjarri Hollywood-hæðum næstu misserin.

Rockets eru tilbúnir til að láta nýliða og valrétti í nýliðavalinu í skiptum fyrir Howard og samansafn launahárra en aðsópsskertra leikmanna á borð við Glen Davis, Jason Richardson, Chris Duhon og jafnvel Hedo Turkoglu.  Houston-liðið bjó sér til talsvert rými undir launaþakinu með því að segja upp samningi Luis Scola með svokölluðu uppgjafarákvæði sem fylgdi nýjum kjarasamningi og eftirstöðvar launa hans, 21 milljón dollara, telja því ekki í launaútreikningum Rockets.  Rockets gera sér vonir um að tilboðið gangi vel í Magic-menn, sem vilja helst losa sig við íþyngjandi samninga, binda ekki hendur sínar um of og hefja endurreisn þegar Howard hverfur á braut.

Það sem veldur spekingum einna helst áhyggjum varðandi þessi hugsanlegu skipti er það að þótt Dwight Howard vilji ólmur komast frá Orlando hefur hann minni en engan áhuga á að spila í Houston og myndi seint endurnýja samninginn við Rockets í lok næstu leiktíðar. Núgildandi samningur hans, sem skiljanlega verður í gildi þótt hann færi sig um set, rennur út næsta vor.  Það sem vinnur með Rockets er að kappanum er svo mikið í mun að komast frá Orlando að hann gæti litið á komandi leiktíð sem fórnarkostnað sem þrátt fyrir allt væri betra að færa í Houston heldur en Orlando.  Hins vegar er lítið gagn í því fyrir Rockets að snúa öllu á hvolf til að njóta nærveru Dwight Howard í nokkra mánuði og þeir láta varla til skarar skríða nema hafa einhvers konar tryggingu fyrir því að bröltið og tilfæringarnar skili tilætluðum árangri.  Þeir virðast sannfærðir um að fái þeir Howard til Houston takist þeim að telja honum hughvarf, fá hann til að endurnýja samninginn og byggja nýtt lið í kringum hann.