*

Sunnudagur, 17. apríl 2011 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

NBA-pistill | Perkins hefur gjörbreytt möguleikum Oklahoma City Thunder

Mynd: Nordic Photos

Hlynur Ómar Björnsson er hafsjór af fróðleik um NBA-deildina. Hann ætlar að skrifa reglulega NBA-pistla hérna á Sport.is og hérna er fyrsti pistillinn. Pistillinn fjallar um lið Oklahoma City Thunder þar sem leikmaður að nafni Kendrick Perkins ræður ríkjum.

Deildakeppni NBA er nú lokið og úrslitakeppnin framundan. Í uppsiglingu eru margar áhugaverðar seríur, en sú sem vekur mesta athygli undirritaðs er án efa Vesturdeildareinvígi Oklahoma City Thunder (4) og Denver Nuggets (5).
Þarna fara tvö lið sem létu mikið til sín taka á leikmannamarkaðnum rétt áður en lokað var fyrir leikmannaskipti. Eins og frægt er orðið lét Denver frá sér stórstjörnuna Carmelo Anthony til New York Knicks og fékk í staðinn hóp leikmanna sem hafa haft afar jákvæð áhrif á liðið, sem hefur spilað mun betur eftir skiptin.

Oklahoma City kom flestum á óvart þegar liðið skipti tveimur byrjunarliðsmönnum, Jeff Green og Nenad Krstic, til Boston og fengu í staðinn tröllið Kendric Perkins, sem hafði verið lykilmaður í vörn Celtics. Aðdáendum Celtics var alls ekki skemmt – og leikmönnum liðsins reyndar ekki heldur – og líta margir á þessa ákvörðun Danny Ainge framkvæmdastjóra sem mikil mistök. Enda kom á daginn að leikur þeirra versnaði til muna og luku þeir keppni með  því að tapa 11 af síðustu 21 leik tímabilsins.

Fyrir og eftir Perkins
Thunder-liðið hefur hins vegar gjörbreyst til hins betra og eru margir spekúlantar farnir að líta á þá sem mögulegt meistaraefni, þrátt fyrir reynsluleysið. Liðið er án efa eitt af uppáhaldsliðum þeirra sem stjórna NBA-deildinni. Eftir vitleysisganginn í LeBron James þegar hann skipti yfir í Miami Heat síðastliðið sumar og þá neikvæðu umfjöllun sem sá sirkus fékk, var farið að markaðssetja Thunder sem eins konar anti-Heat; lið skipað ungum og efnilegum leikmönnum, sem létu sviðsljósið ekki blinda sig og lögðu mesta áherslu á það sem skipti mestu máli, þ.e. íþróttina sjálfa.

En áttu þeir (frekar en aðrir) einhvern möguleika á að koma í veg fyrir að LeBron og félagar ynnu meistaratitilinn? Flestir gagnrýnendur bentu á hið augljósa að til að vinna meistaratitil þyrfti lið að geta sýnt af sér ákveðna hörku sem erfitt var að finna í liði sem tefldi fram Jeff Green sem kraftframherja og Nenad Krstic sem miðherja. Liðið var augljóslega stútfullt af hæfileikum – með stjörnuleikmennina Kevin Durant og Russell Westbrook í broddi fylkingar – en það vantaði sárlega töffaraskap í framlínuna.

Tilkoma Kendrick Perkins hefur breytt öllu þessu. Fáir leikmenn í NBA standa honum jafnfætis í töffaraskap og hörku. Hann er kannski ekki sá flinkasti í boltanum en setur grjótharðar hindranir (þó hann standi kannski ekki kyrr í þeim öllum), ver skot, tekur fráköst og er fluglæs á sóknarleik andstæðingsins sem gerir honum kleift að stjórna vörninni af myndarskap (eitthvað sem hann lærði af Kevin Garnett í Boston). Hann nýtir einnig hvert tækifæri sem gefst til að ógna og pirra andstæðingana og lendir ósjaldan í störukeppni og næstum-því-slagsmálum og hefur þar yfirleitt betur.

Mynd: Nordic Photos

Það er að minnsta kosti á hreinu að hans er sárt saknað í Boston. Doc Rivers þjálfari Celtics lét t.d. hafa eftir sér í gríni að virði hans ykist með hverjum tapleik Boston (sem eru margir) og meira að segja andstæðingar Celtics hafa á orði að það sé auðveldara að spila gegn þeim nú þegar Perkins er farinn.
Áhrifin á Thunder eru einnig greinileg. Í fyrsta lagi hefur tilkoma varnarsinnaðs miðherja sem getur dekkað aðalframlínuógn andstæðingsins gert Serge Ibaka fært að spila sína bestu stöðu, sem er kraftframherjastaðan. Það er eins og hann hafi verið leystur úr læðingi. Hann kom inn í byrjunarliðið í stað Green og hefur gefið Thunder þann varnarstyrk sem vantaði. Ibaka leiddi deildina í vörðum skotum (198), varði flest skot per 36 mínútur (3,2; 3,9 eftir að Perkins kom til skjalanna). Hann jók stigaskor sitt úr 9,4 í 12,0 stig og fráköst úr 7,4 í 8,3, þó það skrifist aðallega á fleiri leiknar mínútur.

Annað við varnarleik Thunder sem hefur batnað er vörn úti á velli og sérstaklega gegn þriggja stiga skotum. Þegar Green og Krstic mönnuðu miðjuna þurftu félagar þeirra oft að falla langt frá langskyttunum og hjálpa til inni í teig. Það gerði að verkum að varnarleikur Thunder gegn þriggja stiga skotum var einhver sá slakasti í deildinni. Þetta hefur gjörbreyst, því nú ráða Perkins og Ibaka (ásamt Nick Collison og Nazr Mohammed) vel við flest sem gengur á inni í teig og þurfa á lítilli hjálp að halda.

Eitt helsta áhyggjuefnið sem stuðningsmenn Thunder-liðsins höfðu vegna leikmannaskiptanna var hvort breytingin hefði of neikvæð áhrif á sóknarleikinn, enda var verið að skipta tveimur góðum sóknarmönnum úr byrjunarliðinu fyrir tvo varnarsinnaða leikmenn. Þessar áhyggjur hafa ekki orðið að raunveruleika. Samkvæmt ágætri samantekt á dailythunder.com er helsta ástæðan fyrir því stórkostlegur leikur James Harden síðan skiptin voru gerð. Hann hefur skorað 15,9 stig að meðaltali í leik eftir skiptin (10,6 fyrir) og hittir mun betur utan að velli (46,3% eftir, 41,8% fyrir). Þrátt fyrir að bera þyngri byrðar í sókninni (23,0 USG eftir skipti, 17,9 USG fyrir) hefur hann verið skilvirkari skorari (61,6 TS% eftir skipti, 59,2 TS% fyrir), jafnvel þó hann hafi átt óeðlilega erfitt uppdráttar úr þriggja stiga skotum (32,0% eftir skipti, 36,7% fyrir).

Mynd: Nordic Photos

 

Úrslitakeppnin framundan
Það virðist því vera nokkuð ljóst Oklahoma City Thunder liðið er raunveruleg ógn í úrslitakeppninni í ár. Sam Presti framkvæmdastjóri liðsins hefur sett saman öflugt lið ungra og hæfileikaríkra leikmanna, sem eiga það sameiginlegt að vera sterkir karakterar og – það sem meira er – þekkja hlutverk sín í liðinu: Durant og Westbrook eru stjörnurnar sem skora megnið af stigunum, Harden er þriðji skorarinn sem kemur inn af bekknum og er miðpunkturinn í leik varaliðsins, Perkins og Ibaka eru varnartröllin, Thabo Sefolosha er varnarsérfræðingur sem oftast dekkar besta skorara andstæðinganna, Collison og Mohammed eru ruslakallarnir, Daequan Cook er þriggja stiga sérfræðingurinn og Eric Maynor kemur með róandi áhrif í leikstjórnandastöðuna ef Westbrook missir stjórn á sér (sem á til að gerast).

Stærsta spurningarmerkið við möguleika liðsins er reynsluleysið og sú staðreynd að nú þurfa þeir í fyrsta skipti að horfast í augu við miklar væntingar og standa undir þeim. Fyrsta viðfangsefnið er svo sannarlega ekki af auðveldara taginu en Denver liðið hefur verið eitt það allra heitasta í NBA síðustu mánuði. Thunder unnu þó Nuggets tvisvar sinnum í síðustu viku, heima og að heiman, sem ætti bæta sjálfstraustið, auk þess sem þeir hafa heimavallarréttindi í seríunni.

Takist Oklahoma City að klára Denver í fyrstu umferð mæta þeir að öllum líkindum San Antonio Spurs (þó Memphis Grizzlies gætu orðið þeim erfiðir) sem hafa valdið Thunder miklum vandræðum í gegnum tíðina. Það var þó áður en Perkins flutti til Oklahoma og verður mjög áhugavert að sjá hvort Tony Parker og Manu Ginobili hafi jafnmikinn áhuga á að keyra upp að körfunni nú þegar Perkins og Ibaka eru á vaktinni. Á pappír ætti Thunder því að vera mun meiri ógn við Spurs nú en áður.
Til að verða Vesturdeildarmeistarar og komast alla leið í lokaúrslitin þyrftu Thunder þá líklegast að leggja Los Angeles Lakers í úrslitum Vesturdeildar.

Lakers og Thunder áttust einmitt við í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í fyrra og fóru Lakers þá með sigur af hólmi í sex leikjum, þar sem Pau Gasol skoraði sigurkörfu 6. leiksins eftir sóknarfrákast þegar aðeins hálf sekúnda var eftir. Thunder stóðu vel í þeim og var haft eftir Kobe Bryant þetta hafi verið erfiðasta serían sem þeir lentu í Vesturdeildinni. Thunder unnu L.A. sannfærandi í síðustu viku og virðast vera vel búnir til að takast á við stóru mennina hjá Lakers, þá Gasol, Bynum og Odom. Til viðbótar meiddist Bynum á hné í næstsíðasta leik tímabilsins og ef hann getur ekki beitt sér hljóta möguleikar Lakers að hafa minnkað til muna.

En er það ekki fullmikil bjartsýni að búast við því að jafn ungt lið og Oklahoma City Thunder (þriðja yngsta liðið í deildinni) geti náð svona langt? Durant og Westbrook, lykilmenn liðsins, hafa til að mynda aldrei unnið leik á útivelli í úrslitakeppni. Til að leggja Spurs eða Lakers þurfa þeir a.m.k. að vinna einn leik í San Antonio og Los Angeles.

Jú, líklega er það til of mikils ætlast, en þó verður að hafa í huga að flest liðin í Vesturdeildinni hafa sína veikleika. Það verður erfitt að takast á við væntingarnar gegn Denver í fyrstu umferð en ef það tekst að leggja þá er engin pressa lengur á Thunder og þeir hafa þá allt að vinna. Spurs eru gamlir og skortir hlaupagikki til að hlaupa með unglingunum frá Oklahoma og Lakers eiga við meiðsli að stríða auk þess sem þeir hafa verið langt frá því sannfærandi í síðustu leikjum. Það getur því alveg ljóst að þetta verður ein mest spennandi úrslitakeppni í NBA í fjölda ára þar sem allt getur gerst.