*

Laugardagur, 18. apríl 2015 | Þorsteinn Haukur Harðarson | thorsteinn@sport.is | @thorsteinnhauku á Twitter

Bjarni: ,,Þeir stóðu sig vel en ég slapp við aflitun"

bjarniBjarni Gíslason, þjálfari karlaliðs Gerplu, var ánægður með drengina sína eftir Íslandsmótið í hópfimleikum í gær. Gerpla var eina karlaliðið á mótinu og varð því sjálfkrafa Íslandsmeistari en Bjarni segir liðið engu að síður hafa staðið sig vel. Þá slapp hann við veðmál sem hann gerði við drengina.

„Þeir stóðu sig vel. Við gerðum samning til að mótivera þá og fá fólk til að fylgjast betur með þeim. Samningurinn fól í sér að ég myndi aflita á mér hárið ef strákarnir myndu lenda öll stökkin sín, en ef eitt stökk myndi klikka væri ég sloppinn," sagði Bjarni og hélt áfram.

„Þeir stóðu vel undir pressunni og þeir stóðu sig mjög vel. Það voru samt þrjú stökk sem þeir stóðu ekki svo ég slapp."

Við spurðum Bjarna hvort han þyrfti ekki að koma til móts við liðið og setja að minnsta kosti eina strípu í hárið vegna góðrar frammistöðu.

„Við sjáum til með það. Þetta er víst stórmál. Þetta á samt ekkert að vera aðalmálið. Það á að vera aðalmálið að standa sig vel, þetta var bara gulrót."