*

Föstudagur, 17. apríl 2015 | Þorsteinn Haukur Harðarson | thorsteinn@sport.is | @thorsteinnhauku á Twitter

Þórey: ,,Búnar að bíða lengi eftir gulli í meistaraflokki"

þóreyÞórey Ásgeirsdóttir, fimleikakona úr Stjörnunni, var skiljanlega himinlifandi þegar Stjörnuliðið tryggði sér Íslandsmeistarartitilinn í kvöld en með sigrinum stöðvaði Stjarnan níu ára sigurgöngu Gerplu. Hún ræddi við okkur þegar bikarinn var í höfn.

„Við erum búnar að bíða lengi eftir þessum titli. Sumar lengur en aðrar. Sumar eru búnar að bíða í mörg ár en aðrar eru nýkomnar úr 1. flokki. Þetta var stór sigur fyrir okkur allar," sagði Þórey eftir mótið og bætti við.

„Við gerðum okkar besta og þetta var bara frábær sigur. Það var ótrúlega skemmtilegt að vinna loksins gullið í Meistaraflokki."

Mikil spenna var fyrir úrslitunum en öll stig Stjörnustúlkna voru ljós á undan stigum Gerplu. Við spurðum hana hvernig tilfinningin hafi verið á meðan beðið var eftir lokaniðurstöðunni. „Ég var mjög bjartsýn því mér fannst við hafa staðið okkur svo vel. Við höfum æft mikið fyrir þetta mót og lagt mikið á okkur."