*

Föstudagur, 27. mars 2015 | Þorsteinn Haukur Harðarson | thorsteinn@sport.is | @thorsteinnhauku á Twitter

Thelma Rut: ,,Það er allt við fimleika sem gerir þá skemmtilega"

Mynd: Þorsteinn Haukur Harðarson.

Mynd: Þorsteinn Haukur Harðarson.

Fimleikakonan Thelma Rut Hermannsdóttir skráði sig á spjöld sögunnar um seinustu helgi þegar hún varð Íslandsmeistari í áhaldafimleikum í sjötta sinn á ferlinum. Við ræddum við Thelmu um ferilinn og framtíðina.

Thelma er hluti af landsliði Íslands sem keppir á EM í áhaldafimleikum í Montpellier um miðjan apríl. Við byrjuðum á því að ræða möguleika liðsins á mótinu. „Í ár er þetta Senior-keppni þannig að þetta er ekki liðakeppni heldur einstaklingskeppni. Fimleikar á Íslandi hafa verið að vaxa síðastliðin ár og við höfum verið að færa okkur framar og framar í samanburði við aðrar þjóðir. Á síðasta ári vorum við íslenska liðið í 3. sæti á Norðulandamóti og á EM erum við því mjög mikið að miða okkur við hin Norðurlöndin og svo líka Írland, N-Írland, Austurríki og Portúgal."

Í viðtölum eftir Íslandsmeistaratitilinn um helgina var hún spurð af fjölmiðlum hvort þetta væri hennar síðasta Íslandsmót. Þá var fátt um svör svo við ákváðum að spyrja hana aftur núna. „Í hreinskilni sagt þá veit ég það ekki. Ég er ekki mikið fyrir að hugsa langt fram í tímann. Ég til dæmis hélt að íslandsmótið á seinasta ári yrði mitt síðasta. Eftir það mót komst ég hins vegar á EM og svo líka á HM í Kína," segir Thelma og heldur áfram.

„Við unnum okkur síðan inn sæti á Evrópuleika á seinasta ári, bæði það og að smáþjóðaleikarnir eru nú haldnir á Íslandi hélt mér gangandi. Mig langaði að vera partur af liðinu sem keppir fyrir Íslands hönd á smáþjóðaleikunum þegar þeir eru haldnir í okkar heimalandi. Við erum ríkjandi meistarar í liðakeppninni og stemningin sem skapast í kringum þessa leika er ólýsanleg."

Það eru því að minnsta kosti nokkur spennandi verkefni áður en ferillinn klárast. „Núna hef ég þrjú mót sem ég stefni að, það eru Evrópumótið í Frakklandi, Smáþjóðaleikarnir á Íslandi og síðan Evrópuleikarnir í Sumar í Azerbajan. Eftir það verð ég bara að sjá hvernig þetta spilast, hvort ég haldi áfram eða ekki."

Næst ræddum við um hvenær hún byrjaði í fimleikum og hvað það sé sem gerir þá svona skemmtilega. „Ég byrjaði að æfa fimleika þegar ég var 3 ára og hef alltaf æft með Gerplu," segir hún og bætir við.

„Ég held það sé allt í fimleikum sem gerir þá skemmtilega! Fyrst og fremst alhliða hreyfing, þetta er svo góð undirstaða fyrir mann. Skilar góðri samhæfingu og styrk. Svo þegar maður er kominn svona langt og farinn að keppa mikið þá er uppskeran best. Uppskeran af hörðum æfingu eru bestu verðlaunin. Það er svo góð tilfinning að til dæmis vinna á mótum eða komast í lið fyrir erlend verkefni eftir allt sem maður hefur lagt á sig fyrir íþróttina. Það er svo gaman að fá að ferðast og keppa á mótum og fá að upplifa allskonar menningu."

Og ekki skemmir félagsskapurinn fyrir:
„Félagsskapurinn skiptir líka miklu máli, maður bindist fólkinu sem æfir með manni ákveðnum böndum. Við höfum ferðast víða saman, gengið í gegnum súrt og sætt, verið stressaðar saman og skemmt okkur vel. Allt þetta gerir ferilinn svo einstakan."

Mynd: Þorsteinn Haukur Harðarson.

Mynd: Þorsteinn Haukur Harðarson.

Margar af bestu fimleikakonum landsins hafa byrjað í hópfimleikum eftir að ferlinum í áhaldafimleikum lýkur. Hefur Thelma íhugað að gera það? „Ég hef ekki ákveðið neitt. Hópfimleikaþjálfarar hafa oft nefnt þetta við mig, svona: „Jæja Thelma hvenær ætlar þú að kíkja yfir í hópfimleikana." En ég hef ekki ákveðið neitt ennþá. Það kom tímabil þar sem margar úr gamla hópnum mínum hættu og skiptu yfir og þá var ansi freistandi að fara með. Þær eru samt flest allar hættar núna líka þannig ég veit ekki hvað ég geri. Aldrei að vita nema einn daginn fari maður í hópfimleikana eða fari bara að gera eitthvað allt annað."

En hvað tekur svo við þegar ferlinum er endanlega lokið? „Ætli maður hætti nokkuð alveg algjörlega. Ég er búin að vera bundin þessari íþrótt svo lengi að ég held að það muni aldrei vera hægt að slíta sig alveg frá þessu. Ég mun örugglega fara að dæma meira á mótum og svo þjálfa eitthvað með skóla og annarri vinnu. Það er allaveganna það sem mér dettur í hug núna," sagði Thelma að lokum við Sport.is