*

Miðvikudagur, 11. mars 2015 | Þorsteinn Haukur Harðarson | thorsteinn@sport.is | @thorsteinnhauku á Twitter

Spennandi bikarmót framundan í hópfimleikum – Vinnur Gerpla 10. árið í röð?

landsliðið í hópfimleikum. Mynd: Þorsteinn Haukur Harðarson.

landsliðið í hópfimleikum. Mynd: Þorsteinn Haukur Harðarson.

Um helgina fer bikarmótið í hópfimleikum fram en keppt verður á Selfossi. Búast má við mikilli spennu á mótinu.

Sérstaklega mikil spenna er fyrir keppni í kvennaflokki en þar hefur Gerpla sigrað níu ár í röð og getur bætt tíunda sigrinum við um helgina. Stjörnunni tókst að sigra Gerplu á Wow mótinu á dögunum og verður spennandi að sjá hvort þær ná að fylgja árangrinum eftir um helgina.

Stjarnan vann einnig sigur í blandaða flokknum en þar ætla Selfyssingar sér sigur á heimavelli. Selfoss hefur aldrei fagnað sigri á bikarmóti í meistaraflokki og er stefnan sett á að bæta úr því hið snarasta. Liðið hefur sjaldan átt meiri möguleika á sigri og því spennandi að sjá hvort liðið standist pressuna.

Þó svo að lið Gerplu sé það eina sem keppir í karlaflokki má engu að síður búast við skemmtilegum tilþrifum. Strákarnir hafa sett sér það markmið að öðlast þátttökurétt á Norðurlandamótinu sem fram fer hér á landi í nóvember. Stigin á bikarmótinu telja í baráttunni um sæti á mótinu og því til mikils að vinna fyrir Gerpludrengi.