*

Miðvikudagur, 22. október 2014 | Þorsteinn Haukur Harðarson | thorsteinn@sport.is | @thorsteinnhauku á Twitter

Stúkan frá fimleikamótinu á leið úr landi | Leigan kostaði rúmar 12 milljónir

Mynd: Fimleikasamband Íslands.

Mynd: Fimleikasamband Íslands.

Líklega verður ekkert af því að stúkan sem notuð var á Evrópumeistaramótinu í hópfimleikum verði áfram hér á Íslandi því eftir því sem Sport.is kemst næst er stúkan nú þegar á leið úr landinu.

Sögusagnir hafa verið í gangi um að Reykjavíkurborg og nokkrar aðrar stofnanir væru að skoða þann möguleika að kaupa stúkuna. Sport.is hefur hringt í ýmsar stofnanir og sérsambönd til að afla sér upplýsinga um málið en hvergi hafast fengið staðfestingar um að málið sé í skoðun. Flestir sem Sport.is hefur rætt við eru þó sammála um að stúkan gæti nýst vel.

Hjá Íþróttabandalagi Reykjavíkur fengust síðan þær upplýsingar að búið væri að pakka stúkunni saman í gáma og bílar væru nú þegar komnir til að ferja stúkuna í niður á höfn þar sem henni verður svo siglt af landi brott.

Þá hefur Sport.is einnig reynt að afla sér upplýsinga um hvað stúkan myndi kosta en það hefur ekki fengist endanleg tala ennþá. Í sínum tíma var í umræðunni að kaupa 1.200 sæta stúku á 60 milljónir og þar sem þessi stúka sem nú ræðir um tekur 4.000 manns í sæti má gera ráð fyrir því að kostnaðurinn sé talsvert meiri.

Samkvæmt heimildum Sport.is kostaði leigan á stúkunni sem kom á hópfimleikamótið 12 milljónir auk þess sem Fimleikasambandið þurfti að greiða fyrir flutning og uppsetningu.