*

Þriðjudagur, 21. október 2014 | Þorsteinn Haukur Harðarson | thorsteinn@sport.is | @thorsteinnhauku á Twitter

Verður stúkan frá fimleikamótinu áfram á Íslandi?

Mynd: Fimleikasamband Íslands.

Mynd: Fimleikasamband Íslands.

Sú saga gengur nú að stúkan sem leigð var til landsins og notuð á Evrópumeistaramótinu í fimleikum um seinustu helgi verði áfram á Íslandi.

Eins og fram hefur komið þótti framkvæmdin við mótshaldið heppnast fullkomnlega og átti stúkan mikinn þátt í því. Stúkan tekur um 4.000 manns í sæti og nær hringinn í kringum íþróttaleikvanga. Eftir mótið skapaðist sú umræða hvort ekki þyrfti að vera til svona stúka sem hægt væri að nota við mismunandi tækifæri og íþróttaviðburði.

Samkvæmt heimildum Sport.is skoðar Reykjavíkurborg nú hvort möguleiki sé á því að borgin muni kaupa stúkuna. Ef af kaupunum verður mun stúkan svo verða nýtt í ýmsar íþróttagreinar.

Sport.is reyndi ítrekað að fá svör frá Reykjavíkurborg vegna málsins í dag en án árangurs.