*

Mánudagur, 20. október 2014 | Þorsteinn Haukur Harðarson | thorsteinn@sport.is | @thorsteinnhauku á Twitter

Hópfimleikamótið gekk vonum framar | 450 sjálfboðaliðar unnu frábært starf

Mynd: Þorsteinn Haukur Harðarson.

Mynd: Þorsteinn Haukur Harðarson.

Það hefur væntanlega ekki farið framhjá íþróttaunnendum að Evrópumeistaramótið í hópfimleikum var haldið í Laugardalnum um helgina. Mótið heppnaðist ákaflega vel og var framkvæmd mótshaldara til fyrirmyndar.

Sport.is ræddi í dag við Evu Hrund Gunnarsdóttur, framkvæmdarstjóra Fimleikasambands Íslands, sem skiljanlega var í skýjunum eftir helgina. Hún fræddi okkur einnig um undirbúninginn fyrir mótið.

„Við erum alveg himinlifandi með hvernig þetta heppnaðist hjá okkur. Við höfum fengið mikið hrós, bæði að utan og hér heima, svo við getum verið mjög stolt," segir Eva og bætir við.

„Undirbúningsnefndin hóf störf fyrir tveimur árum síðan og hefur unnið frábært starf. Mikið af fólki vann baki brotnu við að gera þetta mót svona flott. Það má nefna að um 450 sjálfboðaliðar komu að mótinu og unnu gott starf. Lykillinn á bakvið útkomuna er frábær samvinna allra þeirra sem tóku þátt."

Fyrir mótið var frjálsíþróttahöllinni í Laugardal breytt í fimleikahöll og var leigð stúka til landsins. Stúkan vakti mikla lukku og hefur í kjölfarið skapast umræða um hvort ekki þurfi að vera til svona stúka á landinu en hún gæti nýst í ýmsar íþróttagreinar. „Ég er alveg sammála því að svona stúka þyrfti að vera til hérna. Það myndast mikil stemming og það væri hægt að nota hana fyrir flestar íþróttir."