*

Sunnudagur, 12. ágúst 2012 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

ÓL 2012 | Bandaríkjamenn Ólympíumeistarar í körfuknattleik karla í 14. sinn | Sagan endurtók sig

Mynd: Nordic Photos

Tvö bestu lið keppninnar, Bandaríkin og Spánn, mættust í dag í stórkostlegum úrslitaleik. Bandaríkin gátu með sigri tryggt sér sín fjórtándu Ólympíugullverðlaun í greininni en Spánverjar hafa aldrei unnið. Þessi sömu lið mættust einmitt í úrslitaleiknum í Peking fyrir fjórum árum og þá hafði bandaríska liðið betur, 118-107. Spánverjar vildu í dag hefna ófaranna og vinna sitt fyrsta Ólympíugull í körfuknattleikskeppni karla.

Bandaríkin 107 – 100 Spánn (59-58)

Leikmenn Bandaríkjanna byrjuðu leikinn betur og höfðu 8 stiga forystu, 35-27, eftir fyrsta leikhluta. Þá slökuðu þeir aðeins á klónni og að sama skapi gáfu Spánverjar í. Það skilaði þeim góðum 2. leikhluta og leikar stóðu nærri jafnir í hálfleik en einungis eitt stig skildi liðin að á þeim tímapunkti, 59-58, Bandaríkjamönnum í vil. Hörkuúrslitaleikur milli tveggja góðra liða og þannig vilja allir hafa hlutina.

Síðari hálfleikur fór vel af stað og Spánverjar ívið sterkari aðilinn. Bandaríkin náðu þó að bíta frá sér á nýjan leik og staðan eftir 3. leikhluta var 83-82, Bandaríkjamenn enn með eins stigs forystu í þessum jafna og skemmtilega körfuboltaleik. Draumaliðið sýndi þó mátt sinn í lokaleikhlutanum þegar leiðir liðanna skildu og bandaríska liðið náði forystu sem það lét ekki af hendi það sem eftir lifði leiks. Lokatölur leiksins 107-100 og bandaríska liðið vann sín fjórtándu Ólympíugullverðlaun í körfuknattleikskeppni karla frá upphafi.

Kevin Durant var langatkvæðamestur í bandaríska liðinu með 30 stig enda mikill skorari þessi leikmaður. Vinirnir hógværu, Lebron James (19 stig) og Kobe Bryant (17 stig), komu þar á eftir. Pau Gasol skoraði 24 stig fyrir Spánverja og er klárlega þeirra mikilvægasti leikmaður. Navarro setti 21 stig og Marc Gasol skoraði 17 stig.

Rússar hirtu bronsið

Rússland vann Argentínu í flottum leik um þriðja sæti keppninnar, 81-77, og unnu þar með bronsverðlaun í þessari skemmtilegu körfuknattleikskeppni karla á Ólympíuleikunum. San Antonio Spurs stjarnan Ginobili var atkvæðamestur í liði Argentínu með 21 stig. Þar á eftir komu Nocioni með 16 stig og svo loks Delfino með 15 stig. Stigahæstur í liði Rússa voru Shved með 25 stig, Kirilenko með 20 stig og Fridzon með 19 stig.

Glæsilegt mót að baki og efstu liðin mega eiga það að þau gáfu áhorfendum allt fyrir peninginn og fáir geta kvartað yfir skemmtuninni sem körfuboltinn stóð fyrir á síðustu vikum.

Efstu lið í körfuknattleikskeppni karla á Ólympíuleikunum í London 2012

1. Bandaríkin
2. Spánn
3. Rússland
4. Argentína