*

Laugardagur, 11. ágúst 2012 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

ÓL 2012 | Þórir og norsku stúlkurnar Ólympíumeistarar | Spánverjar unnu bronsverðlaun

Mynd: Nordic Photos

Norska kvennalandsliðið í handknattleik varð í kvöld Ólympíumeistari eftir glæsilegan sigur á Svartfjallalandi, 26-23. Íslendingurinn Þórir Hergeirsson þjálfar norska liðið og ekki amalegt að eiga smá hlut í þessum flottu gullverðlaunum norska liðsins. Þau eru vel að sigrinum komin en liðið komst fjallabaksleiðina inn í 8-liða úrslitin.

Noregur 26 – 23 Svartfjallaland (13-10)

Svartfellingar höfðu forystuna fyrstu 10 mínútur leiksins en eftir það breyttist leikurinn örlítið og síðustu 15 mínútur hálfleiksins voru eign Norðmanna, sérstaklega síðustu fimm mínúturnar en þá náðu þær að halda Svartfellingum 2-3 mörkum frá sér. Hálfleikstölur stóðu í 13-10, Noregi í vil og síðari hálfleikur hófst eins og sá fyrri endaði. Forystan hélst í 2-3 mörkum allan tímann en Svartfjallaland jafnaði í 19-19 þegar 14 mínútur voru eftir af leiknum.

Þá áttu Norðmenn aftur góðan sprett og héldu leiknum í sínum höndum allt til loka, þar sem síðustu mínúturnar voru öflugar og þriggja marka Ólympíugullverðlaunasigri var siglt í höfn. Lokatölur 26-23 og eðlilega var fagnað vel og innilega. Íslendingurinn Þórir Hergeirsson að þjálfa norska liðið og honum var greinilega mjög létt að sjá sigurinn tryggðan í hús.

Atkvæðamestar í liði Norðmanna voru Linn Jorum Sulland (í sérflokki) með 10 mörk, Ida Alstad sem skoraði 5 mörk og svo Linn-Kristin Koren með 3 mörk. Markverðir norska liðsins tóku samanlagt 8 bolta, Katrine Lunde Haraldsen með 5 varin skot og Kari Aalvik Grimsbo með 3. Atkvæðamestar hjá Svartfellingum voru Katarina Bulatovic sem átti stórleik og skoraði 10 mörk, Bojana Popovic með 5 mörk og stöllurnar Marija Jovanovic og Jovanka Radicevic skoruðu 3 mörk hvor. Markvörður Svartfellinga, Sonja Barjaktarovic, átti stórgóðan leik í rammanum en hún varði 17 skot og var með 40% hlutfallsmarkvörslu í leiknum.

Silfurverðlaun Svartfjallalands, sem er ung handboltaþjóð, sérstaklega í kvennaboltanum, koma fólki nokkuð í opna skjöldu líkt og silfur Íslands í Peking 2008. Bojana Popovic, sem gerði 5 mörk í leiknum, lagði skóna á hilluna eftir leik kvöldsins. Hún lætur eftir sig 6 Evrópumeistaratitla með 3 mismunandi félagsliðum, 6 danska meistaratitla og fjórum sinnum hefur hún verið valin besti leikmaður dönsku úrvalsdeildarinnar. Hún kveður því handboltaheiminn með söknuði og handboltaheimurinn hana sömuleiðis. Frábær karakter og frábær íþróttamaður.

Spánn náði bronsinu

Spánverjar lögðu Suður-Kóreu í leiknum um 3.sætið í tvíframlengdum leik. Staðan var jöfn í hálfleik, 13-13, og jöfn eftir venjulegan leiktíma, 24-24, eins og gefur að skilja. Staðan eftir fyrri framlengingu var 28-28 og lokatölur leiksins voru 31-29, Spánverjum í vil og bronsmedalían varð þeirra.

Markahæstar í liði Spánverja voru Nely Alberto Francisca og Begona Fernandez Molinos með 5 mörk hvor og svo komu fjórar stúlkur með 4 mörk hver. Markmenn spænska liðsins vörðu samanlagt 19 bolta, þar af varði Silvia Navarro Jimenez 15 skot. Í liði Suður-Kóreu skoraði Han Na Gwon mest eða 7 mörk, Hyobi Jo skoraði 5 mörk og þrjár stúlkur skoruðu 4 mörk hver. Hui Ju, markvörður liðsins, varði 16 skot í leiknum og stóð sig gífurlega vel á milli stanganna.

Handknattleikskeppni kvenna á Ólympíuleikunum í London 2012

1. Noregur
2. Svartfjallaland
3. Spánn
4. Suður-Kórea