*

Föstudagur, 10. ágúst 2012 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

ÓL 2012 | Undanúrslit í körfuknattleikskeppni karla í dag

Kraftaverk þarf til að Argentína vinni Bandaríkin í kvöld

Mynd: Nordic Photos

Undanúrslit körfuknattleikskeppni karla á Ólympíuleikunum fara fram í dag og kvöld. Fyrst mætast Spánn og Rússland kl. 16:00 en bæði liðin unnu sterka andstæðinga í 8-liða úrslitunum. Spánverjar tóku Frakka 66-59 og Rússar tóku Litháa 83-74. Það verður algjör hörkuleikur milli þessara tveggja liða og verður gaman að sjá hvort Evrópuliðið hefur betur.

Síðari viðureignin, sem hefst kl. 20:00, er á milli risanna sem spanna NBA-flóruna, semsagt stórlið Bandaríkjanna og svo Argentínu. Argentína vann granna sína í Brasilíu 82-77 í hörkuleik í 8-liða úrslitunum. Bandaríkjamenn fóru tiltölulega létt í gegnum Ástralíu, lokatölur þar 119-86. Það þarf eitthvað stórslys að verða ef Bandaríkin fara ekki í úrslit en þeir hafa unnið keppnina 13 sinnum og eru ríkjandi Ólympíumeistarar í greininni. Þetta gætu þó orðið síðustu leikarnir þar sem allar helstu stjörnur liðsins fá að vera með en David Stern, eigandi NBA-deildarinnar er ekki hrifinn af því að bestu leikmennirnir spili frítt svona að sumri til á milli leiktíða, ef að NBA-deildin sem slík, græðir ekki peninga á því athæfi.

En við, íþróttaunnendur, vonumst auðvitað til þess að svo verði aldrei og að við fáum alltaf að sjá bestu keppendur hvers lands, í hverri íþrótt, á Ólympíuleikunum. Reyndar er knattspyrnukeppnin U-23 ára keppni, með leyfi til að spila þremur eldri keppendum í hverju liði, en það mun líklega aldrei gilda um aðrar íþróttagreinar enda um stærsta mót heims að ræða og fólk á að vera stolt af því að fá að vera með.

Undanúrslit körfuknattleikskeppni karla, föstudaginn 10.ágúst 2012
16:00 Spánn-Rússland
20:00 Bandaríkin-Argentína