*

Þriðjudagur, 7. ágúst 2012 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

ÓL 2012 | Hreiðar Levý: „Eitt skref í einu kallinn minn"

Mynd: Nordic Photos

Hreiðar Levý Guðmundsson fann sig mjög vel í sigri íslenska liðsin gegn því breska í gær. Eins og kom fram í frétt okkar um leikinn var sigurinn temmilega erfið fæðing þó að hann hafi í raun aldrei verið í hættu en við slitum okkur aldrei almennilega frá þeim fyrr en við komumst í 10 marka forystu þegar um 20 mínútur voru eftir af leiknum.

Vaskleg framganga Hreiðars í rammanum, með samtals 19 varða bolta, hafði mikið að segja um þann góða 17 marka sigur sem að lokum vannst, 41-24, en hann var vel undirbúinn í markinu. Sport.is náði tali af Hreiðari í dag en tíminn hjá drengjunum úti er annasamur á milli leikja enda fer mikill tími í að funda, leikgreina og auðvitað hvílast vel, þegar tækifæri gefst til.

Hreiðar segir frammistöðu Bretanna ekki hafa komið sér neitt sérstaklega á óvart? „Ekki beint. Við vorum bara á hælunum í fyrri hálfleiknum á meðan þeir gáfu allt í þetta og voru bara að njóta þess að spila handbolta á Ólympíuleikum. Við vissum alveg að það væri stór getumunur á liðunum og það sást vel í seinni hálfleiknum þegar við settum úr hlutlausum í þriðja gír."

Nú fannstu þig mjög vel í leiknum líkt og í öðrum leikjum sem þú hefur spilað í London, beiðstu hungraður eftir tækifærinu í kjölfar Frakkaleiksins þar sem þú komst ekkert við sögu? " Það er rétt, þetta hefur gengið ágætlega hingað til. Maður er alltaf hungraður í að spila og ég reyni að nýta mínar mínútur eins vel og ég get alveg óháð því hvort ég hafi spilað í síðasta leik eða ekki."

Aðspurður hvort frammistaðan í þessum leik komi honum í byrjunarliðið segir Hreiðar: „Ég spekúlera ekkert í því enda ekki mitt að ákveða það heldur Gumma. Aðalatriðið er að við Bjöggi vinnum vel saman og styðjum hvorn annan í þessu til að gera það allra besta sem við eigum fyrir liðið. Þetta er íslenska landsliðið, þannig að samstaðan og einingin í liðinu er algjör."

Hreiðar segir að Ungverjaleikur morgundagsins leggist vel í sig og að hann sé fullur tilhökkunar. „Hann leggst mjög vel í mig, ég er mjög spenntur enda 8-liða úrslit á Ólympíuleikum. Það eru í raun bara forréttindi að fá að taka þátt í svona tækifæri, þannig að það verður allt gefið í þetta og auðvitað ætlum við okkur áfram þó það sé langt því frá að vera gefið."

Að lokum urðum við að athuga hvort liðið lumi á markmiði fyrir lokasprettinn. „Markmiðið og fókusinn er að komast í gegnum 8-liða úrslitin, svo kemur nýtt markmið eftir þann leik."

Eigum við séns á gullinu? „Eitt skref í einu kallinn minn," sagði kátur Hreiðar Levý að lokum í góðu spjalli við Sport.is fyrr í dag.

Leikur Íslands og Ungverjalands í 8-liða úrslitum handknattleikskeppni Ólympíuleikanna fer fram á morgun, miðvikudag, kl. 10:00.