*

Þriðjudagur, 3. júlí 2012 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

Bardagaíþróttir | Gunnar tilbúinn í UFC segir MMA Viking

Gunnar í hringnum

Stærsti fréttavefur Norðurlanda um blandaðar bardagaíþróttir (MMA) telur íslenska bardagaíþróttamanninn Gunnar Nelson fremsta Norðurlandabúa af þeim sem ekki hafa gert samning við UFC, langstærsta samband heims í blönduðum bardagaíþróttum.

MMA Viking er nú að hefja greinaflokk sem þeir kalla „UFC tilbúinn víkingur" (UFC Ready Viking) og fjallað er um Gunnar í fyrstu grein þessa flokks sem hóf göngu sína á sunnudaginn. Gunnar er flokkaður af MMA Viking sem næstbesti veltivigtarmaður Norðurlanda í blönduðum bardagalistum, næstur á eftir hinum danska Martin Kampmann sem er einn fremsti veltivigtarmaður UFC og 3. á flestum heimslistum, t.d MMA Weekly og Fight Magazine.

Í grein MMA Viking er bardagamaðurinn Gunnar m.a. skilgreindur sem fagmaður sem hefur hæfileika á öllum sviðum íþróttarinnar.

Bakgrunnur hans í karate kemur glögglega í ljós í bardagastílnum; hann stendur breiður og uppréttur, er gríðarlega snöggur í hreyfingum og fótavinnan er næstum gallalaus.  Hann leggur áherslu á það að gefa andstæðingnum ekki færi á höggi eða árás, en ræðst sjálfur til árásar um leið og færi gefst.  Það markar yfirleitt upphaf endisins þegar Nelson nær taki á andstæðingi sínum.  Þegar hann hefur náð andstæðingnum í gólfið notar hann óaðfinnanlega tækni sína og áreynslulitlar hreyfingar til að koma sér í ráðandi stöðu.  Þegar henni er náð mýkir Nelson andstæðinginn með höggum áður en hann nær sigurtaki.

Nelson er meðalstór veltivigtarmaður, 180 sentimetrar á hæð og í kringum 80 kíló að þyngd.  Hann býr að óviðjafnanlegu jafnvægisskyni, er lipur og hreyfanlegur og hefur frábæra stjórn á hreyfingum sínum.  Þökk sé því forskoti sem Nelson býr að vegna tæknilegra yfirburða sinna er hann gríðarlega sterkur í baráttunni í gólfinu.  Auk líkamlegra hæfileika og tæknikunnáttúnnar er rétt að benda á andlegan styrk.  Hann er óvenju rólegur og yfirvegaður í bardaga og undir pressu, aðeins 23 ára að aldri.  Að þessu leyti minnir Nelson á rússneska þungaviktarkappann Fedor Emelianenko, sem svo skemmtilega vill til að er uppáhalds íþróttamaðurinn hans.