*

Föstudagur, 29. júní 2012 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

Ólympíufarar Íslands | Styttist óðum í leikana

Mynd: Nordic Photos

Nú er einungis rétt tæplega mánuður í að Ólympíuleikarnir verða settir í London (27. júlí) og við Íslendingar eigum að venju nokkuð myndarlegan Ólympíuhóp. Fyrirferðarmestir í þeim félagsskap eru örugglega strákarnir okkar í A-landsliði karla í handbolta enda um hópíþrótt að ræða. Við eigum þó ekki einungis þessa handboltasnillinga á leikunum heldur einnig marga mjög ferska íþróttamenn sem keppa í einstaklingsgreinum og svo eitt stykki glæsilega boðsundsveit.

Þeir Íslendingar sem hafa tryggt sig inná leikana eru eftirfarandi:

A-landslið karla í handbolta
Karlalandsliðið, Strákarnir okkar, tryggði sig inná leikana með því að lenda í öðru sæti á eftir Króatíu í undanriðli fyrir leikana en við vorum einnig í riðli með Japan og Síle. Þær þjóðir unnum við örugglega og leikum því á okkar þriðju Ólympíuleikum í röð í karlahandboltanum. Ísland hefur sex sinnum áður tekið þátt í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna og þetta verður því í sjöunda sinn sem við mætum til leiks. Sælla minninga tókum við silfur heim frá Peking árið 2008 sem er að sjálfsögðu okkar besti árangur á stórmóti hingað til í handbolta og þetta voru okkar önnur silfurverðlaun frá upphafi á leikunum. Sá fyrsti til að ná þeim merka árangri var Vilhjálmur Einarsson í þrístökki karla árið 1956 í Melbourne. Þar sem þetta verða síðustu Ólympíuleikar liðsins undir stjórn núverandi landsliðsþjálfara, Guðmundar Þ. Guðmundssonar, þá verður eflaust meira en allt lagt í sölurnar til að innsigla flottasta litinn á medalíunni. Mikið var fjallað um þátt Ólafs Stefánssonar í undirbúningi síðustu Ólympíuleika en þá setti hann hlutina myndrænt upp fyrir liðið og bað alla um að ímynda sér að þeir héldu á medalíu í lok móts. Hann viðurkenndi eftir leikana að hafa ekki sett neinn sérstakan lit á þá medalíu og það er bara vonandi að þeir sjái topplitinn fyrir sér að þessu sinni í hlutverkaleik leiðtogans.

Ásdís Hjálmsdóttir spjótkastari
Ásdís, sem er 26 ára, mun kasta spjóti á sínum öðrum Ólympíuleikum en hún keppti einnig á leikunum í Peking 2008. Þar lenti hún í 50.sæti og náði einungis einu gildu kasti uppá 48,59 metra en hennar besta kast er 61,37 metrar og það kast er frá árinu 2009. Hún var því töluvert langt frá sínu persónulega besta á síðustu leikum og það er óskandi að hún nái upp fyrri styrk og slengi spjótinu yfir 60 metrana að þessu sinni í London. Það er tæpt ár síðan hún náði lágmarkinu fyrir leikana í ár en það var 2.ágúst í fyrra þegar hún kastaði 59,12 metra. Ásdís hefur getið sér gott orð í skólanum en hún ákvað að dúxa í meistaranámi í Lyfjafræði í vor. Ásdís keppir fyrir Ármann.

Óðinn Björn Þorsteinsson kúluvarpari
Óðinn er FH-ingur fæddur árið 1981 og þann 31.mars síðastliðinn tryggði hann sér þátttöku í Ólympíuævintýrinu í London í sumar. Hann bætti sitt besta kast um 40 sentimetra og kastaði 20,22 metra en Ólympíulágmarkið er 20,00 metrar. Kastinu náði hann á innanhússmóti sem fram fór í Kaplakrikanum í Hafnarfirði. Það verður fróðlegt að fylgjast með pilti og gaman að sjá hvort hann bæti sig enn meira á meðal þeirra bestu og setji jafnvel Íslandsmet sem er nú í eigu Péturs Guðmundssonar úr HSK en hann kastaði 20,66 á því herrans ári 1990.

Kári Steinn Karlsson maraþonhlaupari
Kári, sem keppir fyrir Breiðablik og hefur til þessa verið iðinn í styttri vegalengdum og unnið til fjölda verðlauna þar, kom mörgum á óvart með því að tryggja sig inn á Ólympíuleikana í London í sínu fyrsta keppnismaraþoni. Sú staðreynd að hann sé á leiðinni á leikana kemur fólki ekkert í opna skjöldu, en að tryggja sig inn í fyrstu tilraun er ansi magnað. Það var 25. september í fyrra sem hann tryggði sig inn með því að hlaupa Berlínarmaraþonið á 2 klukkutímum, 17 mínútum og 12 sekúndum sem er jafnframt Íslandsmet í greininni. Um 40.000 keppendur og hann tyllti sér bara sultuslakur í 17.sæti af þessum ógnvekjandi mikla fjölda keppenda. Þessi 26 ára gamli hlaupari á eflaust eftir að láta að sér kveða á leikunum en það var ansi áhugaverð ákvörðun hjá honum að demba sér bara í maraþonbransann og tryggja sig í þokkabót inná leikana í fyrstu tilraun.  Heimsmetið í greininni er 2 klukkustundir, 3 mínútur og 38 sekúndur.

Þormóður Jónsson júdókappi
Þormóður, sá mikli jötunn og flotti júdókappi, er að fara á sína aðra Ólympíuleika fyrir hönd Júdófélags Reykjavíkur. Þormóður er á 29. aldursári og hefur staðið sig frábærlega í þessari miklu Ólympíugrein okkar Íslendinga. Á síðustu leikum, í Peking, komst hann í 3. umferð útsláttarkeppninnar og var ansi nálægt því að þrauka fram í 4. umferð sem hefði þýtt 8-manna úrslit. En 9.-16. sætið var staðreynd og það er auðvitað flottur árangur hjá stráknum. Það verða 32 keppendur í London og Þormóður er klár í slaginn í þungavigtarflokki. Þetta verða áttundu Ólympíuleikarnir þar sem við eigum fulltrúa í júdókeppni leikanna. Bjarni Friðriksson vann vitaskuld gífurlega góð bronsverðlaun í júdókeppni Ólympíuleikanna er hann tók bronsið heim frá leikunum í Los Angeles 1984. Það voru okkar fyrstu bronsverðlaun en Vala Flosadóttir fylgdi í kjölfarið árið 2000 í stangarstökki kvenna í Sydney.

Ragna Ingólfsdóttir badmintonkona
Badmintonkonan knáa, Ragna Ingólfsdóttir, fékk fréttir þess efnis í maí síðastliðnum að nærveru hennar væri óskað í London í sumar. Undirbúningur hennar fyrir þessa Ólympíuleika hefur verið örlítil þrautaganga og spiluðu fréttir af peningaleysi hennar til æfinga og keppni þar stóra rullu. Ragna kom fram í fjölmiðlum með sín fjárhagsmál og í kjölfarið fékk hún nægilega styrki til að halda ótrauð áfram. Það var því mikill léttir fyrir þessa frábæru íþróttakonu að fá gleðitíðindin í maí um að hún hefði tryggt sig inná leikana. Hún lék einnig á leikunum í Peking 2008 en þurfti að hætta keppni sökum meiðsla. Hún hefur æft vel undanfarin misseri og ætti að koma af krafti inní keppnina í London. Hún hefur um árabil verið ofarlega á heimslista alþjóða badmintonsambandsins en 72. sæti listans, sætið hennar Rögnu, tryggði hana inn á leikana. Hún er jafnframt í 27. sæti yfir bestu einliðaleikara í Evrópu. Það er mjög sterkt og góður árangur. Ragna æfir og keppir fyrir TBR og hefur lengi verið besta badmintonkona landsins.

Ásgeir Sigurgeirsson skammbyssuskytta
Skammbyssuskyttan Ásgeir (eins og hann er titlaður á heimasíðu Skotfélags Reykjavíkur) er 26 ára gamall og draumur hans um að skjóta úr skammbyssu á Ólympíuleikunum mun rætast í sumar. Þetta var staðfest nú á dögunum af Alþjóða skotíþróttasambandinu en hann fær svokallað kvótapláss í frjálsri skammbyssukeppni karla. Ásgeir hafði einnig áður náð Ólympíulágmarkinu í loftskammbyssukeppni karla en fékk ekki þátttökurétt sökum fjöldatakmarkana. Eftir að hann náði  inn á leikana í frjálsu skammbyssunni þá fékk hann þar með keppnisrétt í loftskammbyssunni í kjölfarið. Tvær flugur beinlínis skotnar í einu höggi. Ákveðið blað er hér með brotið í Ólympíusögu Íslendinga þar sem Ásgeir er fyrsti íslenski skotmaðurinn sem tekur þátt í skammbyssukeppni Ólympíuleikanna.

Mynd: SwimmersDaily.com

Eygló Ósk Gústafsdóttir sundkona
Eygló Ósk úr sundfélaginu Ægi, var fyrst til að synda sig inn á leikana með því að ná lágmarkinu í 200m baksundi (sem er 2:10,84) er hún kom í mark á ÍM50 (Íslandsmeistaramótið í 50 metra laug) á tímanum 2:10,38. Hún má einnig synda í 100 metra baksundi og 200 metra fjórsundi þar sem hún hefur synt undir OST (Olympic standard time) tímanum í þeim greinum. Allir þeir sem ná keppnislágmörkum fyrir mótið, OQT (Olympic Qualifing time), útgefnum af FINA (alþjóða sundsambandið), komast á leikana og mega einnig synda í þeim greinum sem þeir hafa náð undir OST tímanum. Eygló er ung að árum en hún er einungis 17 ára gömul. Fyrir þær sakir er enn merkilegra að hún sé að fara að keppa á Ólympíuleikunum í London og verður eflaust heilmikill skóli fyrir ungan íþróttamann að fá tækifæri á stærsta móti veraldar á meðal þeirra allra bestu.

Sarah Blake Bateman sundkona
Hin bandarísk ættaða íslenska sundkona, Sarah Blake Bateman, sem einnig keppir fyrir Ægi, var næst á eftir Eygló til að tryggja sig inn með lágmarki í svokölluðu„swim off“ í 50 metra skriðsundi á Evrópumeistaramótinu í Ungverjandi. Ólympíulágmarkið er 25,27 en Sarah synti á tímanum 25,24.  Hún má svo einnig synda í 100m skriðsund þar sem hún hefur synt undir OST tímanum í þeirri grein á Evrópumeistaramótinu í sundi. Sarah keppti fyrir Íslands hönd á síðustu Ólympíuleikum og þetta verða því aðrir Ólympíuleikar stúlkunnar.

Hrafnhildur Lúthersdóttir sundkona
Hrafnhildur Lúthersdóttir, tvítug sundkona sem syndir fyrir sundfélag Hafnarfjarðar, hefur fengið keppnisrétt á leikunum í 200 metra bringusundi þar sem hún synti undir OST tímanum (2:32,03) á Evrópumeistaramótinu í sundi en hennar tími var 2:27,11. Flott sund það. Hrafnhildur hefur sett mörg met á undanförnum árum og hefur t.d. sett 15 Íslandsmet, tíu þeirra í 25 metra laug og fimm í 50 metra laug. Gullverðlaun á Smáþjóðaleikunum er enn ein rósin í hnappagat Hrafnhildar og hún var valin sundkona ársins árið 2010 af Sundsambandi Íslands.  Hrafnhildur náði flottum árangri á Heimsmeistaramótinu í Dubai árið 2010 þegar hún náði 12. sæti í bringusundi. 

Eva Hannesdóttir sundkona
KR-ingurinn Eva Hannesdóttir, er svo fjórði meðlimurinn í hinni stórglæsilegu boðsundsveit Íslands í 4×100 metra fjórsundi. Stelpurnar fengu boð um að taka þátt í boðsundskeppninni í London í sumar eftir frábæran árangur þeirra á Evrópumeistaramótinu í 50 metra laug í Debrecen í Ungverjalandi í fyrra. Efstu 12 sveitirnar frá síðasta heimsmeistaramóti fengu boð um þátttöku og svo var fjórum sveitum boðið fyrir góðan árangur á öðrum stórum mótum. Íslenska sveitin var ein þeirra og er sveitin talin á meðal 16 bestu boðsundssveita heimsins í þessari grein. Eygló syndir baksundshlutann, Hrafnhildur syndir bringusundið, Sarah sér um flugsundið og Eva syndir skriðsundið. Hver og ein þeirra syndir 100 metra og miðað við árangurinn á EM50 í Debrecen þá eiga þær góða möguleika á að gera vel á leikunum. Þetta mun vera í fyrsta sinn í sögunni sem Ísland sendir boðsundsveit til þátttöku á Ólympíuleikunum. Eva, sem er búin að synda undir OST tímanum í 100 metra skriðsundi, hefði viljað reyna að ná sjálfu Ólympíulágmarkinu en sá sér ekki fært að keppa á lokaúrtökumótunum sem hefðu getað tryggt henni keppnisrétt. Eva er 24 ára gömul og hefur verið í háskóla í Bandaríkjunum undanfarin fjögur ár.

Sundfólkið öfluga, Ragnheiður Ragnarsdóttir og Jakob Jóhann Sveinsson náðu því miður ekki að tryggja sig inná leikana en ekki er öll von úti enn í þeim efnum fyrir Jakob Jóhann. Mögulegt er að OST tímarnir dugi fyrir hann en OQT-lágmörkin eru hinsvegar, eins og kom fram hér að ofan, það eina sem gulltryggir rétt sundmanna til að keppa á leikunum. Miklar takmarkanir eru í sundinu og einungis tveir geta keppt frá Íslandi í hverri grein og hjá Ragnheiði eru málin þannig að bæði Sarah og Eva eru á undan henni í hennar greinum. Anton Sveinn McKee og Árni Már Árnason, sem synda fyrir sundfélagið Ægi líkt og Jakob Jóhann, eru einnig á biðlista alþjóða sundsambandsins. Þeirra mál ættu að liggja fyrir á næstu dögum.

Nokkrir efnilegir frjálsíþróttamenn gera tilkall til þátttöku. Helga Margrét Þorsteinsdóttir, keppandi í sjöþraut, er ein þeirra sem ekki náð að tryggja sig inná leikana en að því hefur hún stefnt í nokkurn tíma. Fresturinn til að ná lágmarki fyrir leikana í sjöþraut rennur út 8. júlí næstkomandi og því er enn smá von fyrir þessa frábæru íþróttakonu til að tryggja sér þátttökurétt.

Mynd: Nordic Photos

Einar Daði Lárusson, tugþrautarmaður úr ÍR, var fyrir skemmstu hársbreidd frá því að tryggja sig inná leikana en allt kom fyrir ekki. Aðrir frjálsíþróttamenn sem hafa verið í Ólympíuhóp frjálsíþróttasambandsins og æft af kappi til að komast á leikana en ekki tryggt sér þátttökurétt eru: sleggjukastarinn Bergur Ingi Pétursson (sem lýsti opinberlega yfir ánægju sinni með matartjaldið á Ólympíuleikunum í Peking 2008) og langstökkvararnir Kristinn Torfason og Þorsteinn Ingvarsson.

Þorbjörg Ágústsdóttir stefndi að því að verða fyrst Íslendinga til að skylmast á Ólympíuleikunum en það markmið hafðist ekki þrátt fyrir góðar tilraunir hennar til að tryggja sér þátttökurétt í sumar.

Allir þeir sem hafa tryggt sig inná leikana æfa nú af kappi til að mæta sem best undirbúnir til London í lok júlímánaðar. Aðrir sem ekki hafa tryggt sér þátttökurétt en eiga smá möguleika æfa vitanlega og keppa eins og enginn sé morgundagurinn því það er morgunljóst að þátttaka á Ólympíuleikunum, sem einungis eru haldnir á fjögurra ára fresti, er draumur hvers íþróttamanns og sannarlega mikill heiður að fá að keppa fyrir hönd sinnar þjóðar á leikunum.