*

Fimmtudagur, 26. nóvember 2015 | Þorsteinn Haukur Harðarson | thorsteinn@sport.is | @thorsteinnhauku á Twitter

Fram og Akureyri skiptu með sér stigunum eftir mikla dramatík

Mynd: Sævar Geir Sigurjónsson.

Mynd: Sævar Geir Sigurjónsson.

Fram og Akureyri gerðu jafntefli í fyrsta leik dagsins í Olís-deild karla í handknattleik. Akureyri tryggði sér jafnteflið eftir mikla baráttu á lokamínútunum.

Fyrri hálfleikurinn var ákaflega jafn og spennandi. Akureyringar voru yfirleitt marki yfir framan af en heimamenn í Fram efldust eftir því sem á leið og voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 15-13.

Framliðið byrjaði seinni hálfleikinn að sama skapi mjög veæ og náði fljótlega fimm marka forystu, 20-15. Akureyringar voru þó ekki á þeim buxunum að gefast upp og minnkuðu muninn í eitt mark, 25-24, þegar þjrár mínútur voru til leiksloka. Þeir fengu síðan stuttu síðar tækifæri til að jafna leikinn en klikkuðu og Framarar náðu aftur tveggja marka forystu. Þegar 45 sekúndur voru eftir var Fram einu marki yfir og með boltann í sókn. Framarar töpuðu boltanum og Akureyringar tóku leikhlé þegar 20 sekúndur voru eftir. Sigþór Árni Heimisson braut sér leið í gegnum vörn Fram og tryggði Akureyroi jafntefli. Lokatölur 26-26.

Þorgrímur Smári Ólafsson og Arnar Freyr Arnarsson skoruðu sitthvor 6 mörkin fyrir Fram og Kristófer Fannar Guðmundsson varði tíu skot í markinu.

Hörður Másson var markahæstur hjá Akureyri með sjö mörk og Hreiðar Levý Guðmundsson var frábær í marki gestanna og varði 21 skot.