*

Laugardagur, 21. nóvember 2015 | Þorsteinn Haukur Harðarson | thorsteinn@sport.is | @thorsteinnhauku á Twitter

Úrsli dagsins í Olís-deild kvenna

Mynd: Eyjólfur Garðarsson

Mynd: Eyjólfur Garðarsson

Fimm leikir fóru fram í Olís-deild kvenna í handknattleik í dag. Fylkir, Grótta, Haukar, ÍBV og Stjarnan unnu sína leiki.

Íslandsmeistarar Gróttu fóru létt með Aftureldingu á Seltjarnarnesinu. Staðan í hálfleik var 15-7 og Grótta vann að lokum 36-17.

Sunna María Einarsdóttir var markahæst hjá Gróttu með níu mörk en hjá Aftureldingu var Hekla Daðadóttir með sex mörk.

Þá vann ÍBV 15 marka sigur gegn Fjölni Í Vestmannaeyjum. Staðan í hálfleik var 21-10 en lokatölur 38-23.

Vera Lopes skoraði tíu mörk fyrir ÍBV en hjá Fjölni var Díana Kristín Sigmarsdóttir markahæst með 14 mörk.

Haukar lentu í miklu basli með HK en HK-ingar voru 11-8 yfir í hálfleik. Haukar voru hinsvegar sterkari í seinni hálfleiknum og unnu að lokum 29-24 sigur.

Ramune Pekarskyte var markahæst í liði Hauka með sjö mörk en hjá HK var Þórhildur Braga Þórðardóttir markahæst með 9 mörk.

ÍR-ingar töpuðu gegn Fylki þrátt fyrir að hafa verið tveimur mörkum yfir í hálfleik, 15-13. Fylkir vann að lokum eins marks sigur, 29-28.

Thea Imani Sturludóttir var markahæst í Fylki með 11 mörk en hjá ÍR var Brynhildur Bergmann Kjartansdóttir með sjö mörk.

Að lokum vann Stjarnan níu marka sigur gegn KA/Þór. Staðan í hálfleik var 16-7 og Stjarnan vann að lokum 30-21.

Þórhildur Gunnarsdóttir var markahæst í Stjörnunni með átta mörk en hjá KA/Þór Laufey Lára Höskuldsdóttir markahæst með sex mörk.