*

Fimmtudagur, 26. mars 2015 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

Fram langleiðina að öruggu sæti eftir þægilegan sigur á FH – Toppliðið fór létt með ÍR

Mynd: Þorsteinn Haukur Harðarson.

Mynd: Þorsteinn Haukur Harðarson.

Tveir leikir fóru fram núna í kvöld í Olís deild karla. Í Kaplakrika mættust FH og Fram og í Austurberginu tók ÍR á móti toppliði Vals.

FH 24 – 29 Fram (12-13)
ÍR 20 – 25 Valur (8-13)

FH byrjaði betur í Kaplakrika en heimamenn voru yfir gegn Fram fyrstu 20 mínútur leiksins. Fram hefur skyndilega tekið við sér í fallbaráttunni og hafði unnið síðustu tvo leiki sína fyrir kvöldið.

Fram fór með eins marks forystu til hlés, 12-13, og stimplaði sig fljótlega í tveggja marka forystu og FH átti í miklum erfiðleikum með að brjóta Framara niður.

Fram var fjórum mörkum yfir þegar fimm mínútur voru eftir og allt stefndi hreinlega í sigur liðsins sem myndi fara langleiðina með að tryggja sæti sitt með þessum tveimur stigum.

Fram sigraði leikinn að lokum örugglega og verðskuldað, 24-29, og er svo gott sem búið að tryggja sætið sitt í deildinni á kostnað Stjörnunar.

Stjarnan verður að sigra Val í næstu umferð eða gera jafntefli og treysta á að Fram tapi gegn Haukum til þess að eiga möguleika í lokaumferðinni þegar þessi Fram og Stjarnan mætast.

Garðar Sigurjónsson var markahæstur í liði Fram með átta mörk en Andri Berg var markahæstur hjá FH-ingum með sex mörk.

Í Austurberginu mætti topplið Vals í heimsókn til ÍR og byrjaði hreint út sagt frábærlega. Valur skoraði fyrstu fimm mörk leiksins og byggði upp vægast sagt góða forystu strax í upphafi en ÍR skoraði ekki sitt fyrsta mark fyrr en eftir ellefu mínútur. Staðan var 8-13 í hálfleik, Val í vil.

Valur var nánast alltaf með yfirhöndina í leiknum og komst t.a.m. í sjö marka forystu. Þrátt fyrir ágætis endasprett hjá heimamönnum sem náðu á tímabili að minnka muninn í þrjú mörk þá sigraði Valur að lokum, 20-25.

Kári Kristján var markahæstur í liði Vals með sex mörk og Stephen Nielsen var með yfir 50% markvörslu í marki toppliðsins. Bjarni Fritzson var markahæstur í liði ÍR með sex mörk sem hefur nú einungis náð í eitt stig úr síðustu fjórum leikjum liðsins.