*

Miðvikudagur, 25. mars 2015 | Þorsteinn Haukur Harðarson | thorsteinn@sport.is | @thorsteinnhauku á Twitter

Gamall refur dregur fram skóna til að hjálpa Kiel

Steinar Ege

Mynd: Nordic Photos

Norski markvörðurinn Steinar Ege hefur samið á ný við þýska stórliðið Kiel. Hann er mættur til að hjálpa liðinu þar sem markvörðurinn Andreas Palicka er meiddur.

Ege lék með Kiel á árunum 1999-2002 og hefur komið víða við á ferli sínum. Hann verður 43 ára í apríl en hann lék seinast með danska liðinu AG Kaupmannahöfn. Þegar danska liðið var svo lagt niður ákvað hann að setja skóna á hilluna.

Það virðist verða orðin tíska að gamlir leikmenn rífi fram skóna um þessar mundir en Ólafur Stefánsson gerði slíkt hið sama á dögunum.