*

Miðvikudagur, 25. mars 2015 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

Stjarnan unnið báða og báðir verið tæpir gegn HK

Mynd: Sævar Geir Sigurjónsson

Mynd: Sævar Geir Sigurjónsson

Það er leikur upp á líf og dauða fyrir Stjörnuna í kvöld er liðið heimsækir HK í Digranesið. HK er nú þegar fallið og spilar því bara upp á stoltið en sömu sögu er ekki hægt að segja um Stjörnuna.

Stjarnan er tveimur stigum á eftir Fram þegar bæði liðin eiga þrjá leiki eftir. Með sigri í kvöld getur Stjarnan sett pressu á Fram liðið og jafnað liðið af stigum en Fram mætir FH á morgun.

Stjarnan mætir svo Val í næstu umferð á meðan Fram mætir Haukum en í lokaumferðinni mætast Stjarnan og Fram og þá stefnir allt í sannkallaðan úrslitaleik um sæti í deildinni.

Stjarnan verður þó að vera annaðhvort með jafnmörg stig eða einu stigi minna en Fram til að eiga möguleika á að halda sæti sínu með sigri.

Stjarnan og HK hafa mæst tvisvar á þessu tímabili en þó ekki síðan í nóvember. Stjarnan sigraði báða leikina með einungis einu marki en fyrri leikur liðanna endaði 27-26 í Mýrinni og seinni 27-28 fyrir Stjörnunni í Digranesinu.

Það má með sanni segja að ef Stjarnan sigrar ekki í kvöld verður liðið að öllum líkindum fallið úr Olís deildinni og því er duga eða drepast fyrir Stjörnumenn.