*

Þriðjudagur, 24. mars 2015 | Þorsteinn Haukur Harðarson | thorsteinn@sport.is | @thorsteinnhauku á Twitter

Róbert Gunnarsson: ,,Final four helgin er rosaleg hátíð"

róbertRóbert Gunnarsson og félagar í PSG munu mæta ungverska stórliðinu Veszprem í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar í handknattleik en dregið var í morgun. Við hringdum í Róbert og ræddum við hann um dráttinn.

„Er búið að draga, hvaða lið fengum við?" voru fyrstu viðbrögð Róberts þegar Sport.is heyrði í honum.

„Við mættum þeim líka í fyrra. Það skiptir ekki öllu máli hvaða lið maður fær þegar maður er kominn svona langt í keppninni. Þetta eru allt hörkulið sem við hefðum getað mætt og nú er bara vonandi að okkur gangi betur gegn Veszprem en í fyrra," sagði Róbert.

Þá spurðum við hvað franska liðið þyrfti að gera til að eiga möguleika gegn Ungverjum. „Nú færðu bara klisjusvör," sagði Robbi léttur og hélt áfram. „Sóknarleikurinn þarf að vera góður og varnarleikurinn og markvarslan enn betri. Þegar komið er í svona leiki snýst þetta líka auðvitað mikið um dagsformið og undirbúninginn."

Þá segist Róbert telja að PSG hafi gæðin til að fara alla leið í Final four. „Það var markmiðið okkar í byrjun eins og hjá flestum öðrum liðum í keppninni. Við eigum alveg að geta komist þangað enda erum við með gott lið. Það eru samt alltaf einhver góð lið sem komast ekki alla leið."

Róbert hefur áður spilað á final four helginni en það gerði hann með liði Rhein-Neckar Löwen. Hann segir afar skemmtilegt að upplifa helgina. „Þegar ég var þarna síðast var þetta rosa hátíð og allt hrikalega flott. Þetta er rosalega stórt og það næsta sem maður kemst að upplifa hálfgert „NBA-show" í handboltanum," sagði Róbert að lokum,