*

Þriðjudagur, 24. mars 2015 | Þorsteinn Haukur Harðarson | thorsteinn@sport.is | @thorsteinnhauku á Twitter

Bjarki Sigurðsson reiknar með því að halda áfram hjá HK – ,,Verki mínu ekki lokið"

bjarkisig1311Þrátt fyrir að HK-ingar séu fallnir úr Olís-deildinni segist Bjarki Sigurðsson, þjálfari liðsins, hafa fullan hug á því að halda áfram með liðið. Við heyrðum í Bjarka í morgun og spurðum hann út í stöðuna.

„Ég fór niður með liðið og mér finnst verki mínu þess vegna ekki lokið. Ég er með tveggja ára samning en það er bara spurning hvað stjórnin vill gera," sagði Bjarki í samtali við Sport.is og bætti við.

„Það er ekki spurning um að ég hef áhuga á því að halda áfram. Við vissum að þetta yrði erfitt og gæti endað svona. Við vorum óheppnir með meiðsli og fengum ekki leikmenn inn á réttum tíma og því fór sem fór. Ég hef samt í hyggju að virða minn samning við félagið."

Þá segist hann lítið vera farinn að pæla í næsta tímabili. „Núna hugsum við bara um að klára þessa þrjá leiki sem eru eftir og reyna að standa okkur í þeim. Svo spyrjum við að leikslokum," sagði Bjarki að lokum.