*

Föstudagur, 20. mars 2015 | Þorsteinn Haukur Harðarson | thorsteinn@sport.is | @thorsteinnhauku á Twitter

Tinna Soffía hætti eftir slæm höfuðmeiðsli: ,,Miklu meira í húfi en bara einn handboltaleikur"

Mynd: Facebook síða Tinnu

Mynd: Facebook síða Tinnu

Nýlega var greint frá því að Tinna Soffía Traustadóttir, leikmaður Selfoss, væri hætt í handknattleik eftir slæmt höfuðhögg sem ógnaði lífi hennar. Nemendur í íþróttasálfræði við Íþróttasvið HR eru um þessar mundir að vinna verkefni um höfuðhögg og einn af nemendunum, Lovísa Dagmar, fékk að fræðast um sögu Tinnu.

„Ég var að koma til baka á völlinn eftir fæðingarorlof og fæ þá högg sem veldur því að ég fæ heilahristing og þrínefbrotna. Svo lá ég yfir ruslatunnunni og ældi og ældi. Ég var með mikinn þrýsting í hausnum og mér leið mjög illa," segir Tinna sem þó kom aftur inn á og spilaði lokamínútur leiksins.

„Eftir það var ég með stöðugan hausverk og mér leið afar illa."

Tinna var í fjórar vikur frá keppni áður en hún snéri aftur á völlinn. „Þegar ég kom til baka gat ég spilað í hálftíma en þá þurfti ég að stoppa vegna höfuðverks. Eftir það hélt verkurinn áfram 24/7. Ég var svo að brjóta saman þvott á sunnudegi og hníg niður þegar ég ætlaði að sinna börnunum mínum og missi meðvitund. Líkaminn fór niður í 35 gráðu hita og slökkti bara á sér."

„Ég þurfti að hætta í handbolta því ef ég fæ aftur höfuðhögg er líklegt að þetta gerist aftur. Það er alls ekki þess virði þar sem ég á tvö börn og fjölskyldu."

Þá segir Tinna að fólk megi ekki vanmeta þessi meiðsli. „Ekki vanmeta höfuðhögg. Ef maður er tognaður í lærinu skilja allir að þú getir ekki spilað en það er ekki jafn mikil þekking um höfuðhögg. Þegar kemur að höfuðhöggum er miklu meira í húfi en bara einn handboltaleikur."