*

Föstudagur, 20. mars 2015 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

Gummi Gumm um Peking 2008: ,,Leikmennirnir héldu að ég væri búinn að missa vitið"

Mynd: Nordic Photos

Mynd: Nordic Photos

Guðmundur Guðmundsson, fyrrum landsliðsþjálfari Íslands í handbolta og núverandi þjálfari danska landsliðsins er í ítarlegu viðtali á handball-world þar sem hann fer yfir farinn veg og framtíðina. Eins og margir muna væntanlega eftir kom íslenska landsliðið öllum á óvart árið 2008 er liðið vann til silfurs á Ólympíuleikunum en Guðmundur segir það ekki hafa komið honum á óvart heldur þvert á móti hafi hann sagt leikmönnum fyrir mót að markmiðið væri medalía.

„Leikmennirnir störðu á mig og héltu greinilega að ég væri búinn að missa vitið," segir Guðmundur í samtali við Handball-World.

„Þegar þú ferð frá þessari eyju þá viltu standa þig vel. Við gefumst ekki upp. Við spilum með hjartanu og hlutir eins og stolt, hjarta og heiður blandast saman þannig þetta verður allt einhver geðveiki," segir Guðmundur en hann hefur oftar en ekki unnið með vonir og væntingar heillrar þjóðar á herðum sér.

„Það er sagt að allir eiga að setja saman markmiðið svo það sé hægt að ná þeim og það virðist hafa virkað. Markmiðin þurfa að vera augljós og mælanleg en verða þó að vera einungis innan liðsins. Ég tala eins og pólitíkus við fjölmiðla," segir Guðmundur og heldur áfram.

„Það þarf að endurtaka markmiðin aftur og aftur og ræða um þau. Svo þurfa menn að vera rosalega einbeittir. Ég hjálpa mönnum eins og ég get sem þjálfari og reyni að leiða veginn en ég get ekki unnið vinnuna inni á vellinum fyrir þá."

Þá segir hann einnig mikilvægt að hafa sterka karaktera í góðum liðum. „Lið þarf að samanstanda af eins mörgum sigurvegurum og hægt er. Ég reyni að finna þessa einstaklinga og breyta þeim í lið."

Þá ræddi Guðmundur einnig um íslensku deildina og hversu ungir leikmenn eru þegar þeir fara í atvinnumennsku héðan. „Íslenskir leikmenn þurfa oft að taka á sig mikla ábyrgð snemma því þeir fara snemma í atvinnumennskuna. Það veldur því að menn þroskast hraðar"


Guðmundur undirstrikar að það mikilvægasta sem þjálfari þarf að hugsa um sé undirbúningur. „Undirbúningurinn er lykillinn að árangri. Allar æfingar eru skoðaðar vel og farið yfir frammistöðu hvers og eins. Við hituðum oft upp í fótbolta og meira að segja þá fylgdist ég með hvort það væri ekki allir að leggja sig 100% fram," segir Guðmundur og bætir við. 

„Þegar undirbúningnum lýkur eru þeir sem stóðu sig best valdir til að spila fyrir landsliðið. Menn berjast um sætin fram að seinustu æfingu og það að spila á stórmóti fyrir hönd þjóðarinnar eru verðlaunin."