*

Fimmtudagur, 19. mars 2015 | Þorsteinn Haukur Harðarson | thorsteinn@sport.is | @thorsteinnhauku á Twitter

Einar Hólmgeirs: ,,Sóknarleikurinn ekki boðlegur fyrir efstu deild"

Mynd: Sport.is

Mynd: Sport.is

Einar Hólmgeirsson, einn af þjálfurum ÍR, var ekki sáttur við sóknarleik sinna manna í tapinu gegn Fram í kvöld. Hann ræddi við Sport.is eftir leikinn.

„Þetta eru vonbrigði. Við spilum ágætis vörn og markmennirnir voru fínir en sóknarleikurinn var ekki boðlegur fyrir efstu deild karla í handknattleik," sagði Einar eftir leikinn.

Litli bróðir hans, Björgvin Hólmgeirsson hefur verið frábær í sókninni í vetur en misst af seinustu leikjum vegna meiðlsa. Munar svona mikið um hann? „Já auðvitað. Hann er markahæsti maður deildarinnar meira að segja þó hann sé búinn að missa af nokkrum leikjum. Það er samt engin afsökun, aðrir leikmenn verða bara að stíga upp og nýta tækifærið," sagði Einar og hélt áfram.

„Ég hef aldrei skilið hvernig það er hægt að vera ragur við að skjóta, þegar ég var að spila skaut ég bara þangað til þjálfarinn tók mig útaf. Vonandi verður þetta komið í lag fyrir næsta leik gegn Val. Ef menn eiga í vandræðum með að peppa sig upp fyrir þann leik eiga menn bara að finna sér eitthvað annað að gera."

Þá spurðum við hvort það kæmi ekki bara til greina að Einar tæki fram skóna. „Góð spurning. Nei alls ekki, það er ekki fræðilegur möguleiki."