*

Fimmtudagur, 5. febrúar 2015 | Þorsteinn Haukur Harðarson | thorsteinn@sport.is | @thorsteinnhauku á Twitter

,,HSÍ hefur verið sofandi síðan í Peking"

Kristinn Björgúlfsson ræðir um málefni íslenska landsliðsins.

Kristinn Björgúlfsson ræðir um málefni íslenska landsliðsins.

Heimsmeistaramótinu í handknattleik lauk í Katar um síðustu helgi og endaði íslenska liðið í 11. sæti mótsins. Sport.is fékk Kristinn Björgúlfsson, formann Leikmannasamtaka Íslands, leikmann Fram og fyrrum atvinnumann í handknattleik, til að fara yfir mótið. Kristinn segir að árangur íslenska liðsins sé ekki ásættanlegur og telur að til að ná árangri þurfi handknattleikssamband Íslands að hætta að lifa á fornri frægð.

Ég get ekki sagt að 11. sætið sé ásættanlegur árangur. En þetta kemur ekkert á óvart. Hef oft sagt að síðan við unnum slifur í Peking þá hafa allir í forustunni bara verið að tala um það.  Ef að við ætlum að gera eitthvað þá þarf að fara að hætta að hugsa um silfurdrengina í Peking, ég tel það algjört lykilatriði. Það þarf að horfa fram á veginn," segir Kristinn og bætir við að Ísland hefði átt að afþakka boð um sæti á HM.

„Mín persónulega skoðun er að HSI hefði átt að hafa pung í að afþakka sætið sem aldrei var okkar þar sem við klúðruðum því í umspilsleikjum á móti Bosníu. En mögulegi miðinn til RIO var mönnum of mikilvægur. HSI hafði frábært tækifæri til að standa upp og afþakka þá spillingu sem er í gangi hjá IHF með Hassan Mustafa í fararbroddi. Við hefðum aldrei átt að taka þátt í þessari vittleysu sem fór í gang eftir að IHF henti Ástralíu út, breytingar á reglun og öllu því bulli sem fylgdi á eftir. Svo við tölum nú ekki um öll þau mannréttindabrot sem framin eru í Qatar."

Kristinn segir að íslenska liðið eigi lið sem getur náð árangri. „Hópurinn er alltaf flottur. Í okkar liði eru frábærir leikmenn og allir vilja alltaf leggja sig allan fram. Því miður gengur það ekki alltaf upp. Fyrir mótið voru spilaðir margir leikir á stuttum tíma og enn og aftur var spilað á fáum leikmönnum.  Þetta rúllaði svo sem vel í æfingaleikjumnum en svo klikkaði það sem gat í mótinu. Því miður."

Kristinn talar um að of margir leikmenn íslenska liðsins hafi átt slakt mót.

„Guðjón Valur var slakur á þessu móti og það er skiljanlegt. Þegar veikindi koma upp hjá börnum þínum er handbolti ekki mikils virði. Skiptir bara engu máli satt að segja. Guðjón spilaði ekki með liðinu á æfingamóti fyrir keppni og Stefán spilaði mjög vel á þeim tíma. Stefán hefði átt að spila meira en hann gerði á þessum tíma og annar leiðtogi átt að stíga upp í staðinn. Aron var því miður tifandi tímasprengja á þessu móti að mínu mati. Alveg var ég með það á hreinu að hann myndi fá annað högg og detta út," segir Kristinn og bætir við.

„Fólk tekur það ekki nógu alvarlega hversu alvarleg höfuðhögg geta verið. Sumir gengu meira segja svo langt að honum bæri skilda til að spila með liðinu gegn Danmörku, fegruðu það síðan með að segja ef hann væri heill. Ég vill nú ekki meina að bara Guðjón og Aron hafi klikkað. Við spiluðum einn góðan leik á mótinu, og það var gegn Frökkum þar sem við vorum á pari. Alexander Petterson sást ekki allt mótið, maður sem alltaf hefur verið góður. Arnór Atla var slakur, svona mætti lengi telja. Mikilvægasti maður liðsins Snorri Steinn náði sér því miður ekki á strik. Staðreyndin er sú að þegar Snorri er góður þá er liðið gott. Snorri er heilinn í þessu öllu. Menn eru yfirleitt fljótir að setja út á Snorra fyrir allt mögulegt, en margur spekingurinn á Íslandi hefur ekki hundsvit á handbolta."

Mynd: Eyjólfur Garðarsson

Mynd: Eyjólfur Garðarsson

Þá segir hann einnig að það þurfi að auka fræðslu varðandi höfuðhögg í íþróttum. „Ísland á tvær landliðskonur sem hætt hafa eftir höfuðhögg, Rakel Braga og Stella Sigurðar. Hvernig stendur á því að forusta handboltans hefur ekkert gert í þessu ? Engin fræðsla eða annað."

Næst var Kristinn spurður að því hvort það þurfi að gera miklar breytingar á landsliðinu.

„Ólafur Stefánsson talaði loks tungumál sem allir Íslendingar skildu í HM stofu RUV þegar hann sagði að menn yrðu að gera það upp við sig hvort þeir vildu vera 100% með í landsliðinu eða ekki. Og það þyrfti að gerast á næstu 1-2 mánuðum.  Ef menn eru tilbúnir áfram þá er ég á því að þetta lið er það sem á að keyra á í næstu keppni. Á sama tíma þá þarf að búa til hið fræga B-lið og velja það með þeim tilgangi að þeir komi inn eftir næstu keppni sem er EM í Póllandi. Ég vill ganga svo langt og segja að B-liðið ætti að spila í deildarkeppni líkt og landslið Sviss gerði þegar EM fór fram þar. Velja þessa ungu framtíðarmenn í liðið, leikmenn gætu þó ekki leikið gegn sínu félagsliði. Hér þarf að vanda vel til verka og eins og Ólafur Stefánsson sagði, velja menn sem eru 100% tilbúnir í að verða landliðsmenn 2-3 ár. Ef þeir eru nógu góðir áður en það gerist þá verða þeir valdir inn í landsliðið. Það segir sig sjálft að menn hoppa bara ekki út UMFA eða Fram og beint í byrjunarlið í landslið."

En hvers vegna virkaði liðið oft svona andlaust á mótinu? „Ég held það stafi hreinlega af þreytu. Það er enginn í landsliðinu sem vill ekki leggja sig fram og spila vel fyrir þjóð sína.  Margur landliðsmaðurinn skipti um lið fyrir þetta tímabil og það tekur tíma að komast inn í nýja hluti. Held satt að segja að það sé stór partur af sýringu landliðsins."

Næst ræddum við um framtíðina og Kristinn var spurður hvort að íslenska landsliðið væri á niðurleið. „Það fer eftir því hvernig það gerist næst, það er ekkert sjálfgefið að við séum með á næsta móti ef hugsað er út í það. Riðillinn er mjög erfiður sem við erum í núna. En ég tel að það þurfi hugsjónarbreytingu á handboltanum á Íslandi. Ef við komumst ekki á mótið núna þurfum við kannski að skipta mannskapnum út."

Þá segir Kristinn að það þurfa að breyta ansi miklu hjá HSÍ.

„Ég vill fá algjöra hugsjónarbreytingu hjá forustu handboltans. HSI þarf að fara í nafnlaskoðun. Kannski þurfum við að stíga aðeins tilbaka og sætta okkur við að vera ekki með á einu stórmoti til þess að koma sterkari til baka. En það gerist ekki með því að halda áfram á sömu braut. Það þarf að endurskoða dæmið allt frá grunni. Eins og ég kom að áðan þá hefur HSI verið sofandi síðan í Peking. Skoða þarf allt starfið hjá þeim. Það gengur ekki út að halda úti unglingalandsliðum þar sem leikmenn selja klósettpappír til að komast í ferðir á meðan t.d Noregur greiðir allt fyrir sína leikmenn. Ef þetta er svona dýrt, þá verðum við hreinlega að hætta að halda úti þessum landsliðum, og reyna að standa okkur betur á öðrum vettfangi, eins og t.d með B-landsliði þar sem kostnaðurinn er minni. Alltaf er verið að tala um að við eigum ekki nógu sterka varnarmenn og allt það. Af hverju breytum við ekki reglum þannig að sóknar/varnarskipting sé ekki lengur leyfileg. Maður sér varnar/sóknar skiptingar í 3 flokki. Þeir þjálfarar ættu að skammast sín. Svona er lengi hægt að halda áfram," segir Kristinn og heldur áfram.

„Eitt er alveg víst. Ef við gerum ekki eitthvað í þessu núna, þá fer illa."

Að lokum segist Kristinn ekki á þeirri skoðun að skipta þurfi um þjálfara. „Ég tel að það þurfi ekki að skipta um þjálfara. Margur spekingurinn er alltaf á því að það þurfi að skipta um þjálfara þegar illa gengur. Ég tel Aron vera rétta manninn í starfið. Hann hefur sýnt að hann er gríðarlega öflugur og þó liðinu hafi ekki gengið vel á þessu móti held ég að hann sé ennþá rétti maðurinn í jobbið. Ef hins vegar það ætti að reka Aron þá sé ég ekki neinn sem gæti tekið við liðinu. En ég held það sé ekki á dagskrá."