*

Fimmtudagur, 29. janúar 2015 | Þorsteinn Haukur Harðarson | thorsteinn@sport.is | @thorsteinnhauku á Twitter

Pistill: Fleiri sturlaðar staðreyndir um Katar

Mynd: Þorsteinn Haukur Harðarson.

Mynd: Þorsteinn Haukur Harðarson.

Þorsteinn Haukur Harðarson skrifar frá Katar:
Fyrir örfáum dögum birti fréttaritari Sport.is grein hér á vefnum sem hét Tíu sturlaðar staðreyndir um Katar. Eftir nokkra daga í viðbót í landinu hefur undirritaður komist að fleiri staðreyndum um landið og ákvað því að skella í aðra grein.

Fleiri sturlaðar staðreyndir um Katar:

Það er gríðarlega óalgengt að konur vinni mikið úti og blaðamaður hefur tekið mikið eftir því. Það var t.d. mjög furðulegt að kíkja í La Senza og kvennadeildina í H&M fyrir konuna og fá bara aðstoð frá karlmönnum.

Erlendum konum, sem flytjast til Katar í vinnutilgangi, er óheimilt að gifta sig án þess að fá fyrst sérstakt leyfi frá atvinnurekanda. Hann getur jafnframt hafnað beiðninni án nokkura útskýringa.

Katarar vita EKKERT um Ísland. Einn heimamaður sem varð á vegi okkar trúði því ekki einu sinni að Ísland væri til í alvörunni. Annar brosti hringinn þegar ég sagðist vera frá Íslandi. Hann sagðist vera harður Man. Utd maður og spurði mig hvort það væri ekki gaman að vera frá sama landi og Roy Keane. (Írland)

Bensín er hræódýrt í þessu olíuríki og kostar einn líter af bensíni um 37 krónur íslenskar.

Ein Big Mac máltíð á McDonalds er frekar ódýr og kostar um 750 krónur. Samt er hægt að fá rétt rúmlega 20 lítra af bensíni fyrir andvirði einnar Big Mac máltíðar. Toppiði það.

Þeir ætla hvergi að spara fyrir HM í fótbolta. Til marks um það má nefna að þeir ætla að stækka einn af núverandi fótboltavöllum sínum fyrir mótið, og minnka hann svo aftur eftir mótið. Það gera þeir vegna þess að þeir vita að þeir munu aldrei fylla völlinn aftur.

Miðað við núverandi áfengislöggjöf er ekki séns að fá undanþágur til þess að neyta áfengis á almannafæri. Enskir, þýskir og hollenskir knattspyrnuáhugamenn þurfa þess vegna að vera alsgáðir á HM í knattspyrnu árið 2022. (einmitt)

Í janúar er á bilinu 20-25 gráðu hiti í Katar og það kalla heimamenn vetur. Þær klæða sig í hlý föt og bölva kuldanum eins og pestinni. Þeir ættu að prufa að taka einn janúarmánuð á klakanum heima!

Katarar eru ekki hrifnir af myntpeningum og bjóða einungis upp á seðla. Ef eitthvað kostar 5,40, þá borgar maður 6.00 og fær ekkert til baka.