*

Mánudagur, 12. janúar 2015 | Þorsteinn Haukur Harðarson | thorsteinn@sport.is | @thorsteinnhauku á Twitter

Bjarki Már: ,,Fuchse Berlin er spennandi lið"

Mynd: Heimasíða Eisenach.

Mynd: Heimasíða Eisenach.

Eins og fram hefur komið staðfesti Bjarki Már Elísson við Sport.is fyrr í dag að hann myndi ganga til liðs við þýska úrvalsdeildarfélagið Fuchse Berlin í sumar. Við ræddum við Bjarka um félagaskiptin.

„Aðdragandinn að þessu var í rauninni ekki langur. Erlingur talaði við mig um það leyti sem hann skrifaði undir og eftir það fóru hjólin að rúlla," sagði Bjarki Már um aðdragandann.

Komu fleiri lið til greina? „Það veit ég svo sem ekki. Umboðsmaðurinn minn sér um þessi mál. Það eina sem ég veit var að Eisenach vildi gera allt til að halda mér en um leið og Fuchse kom í umræðuna vildi ég klára það sem fyrst, enda mjög spennandi lið."

Bjarki segir þetta stórt skref upp á við fyrir sig. „Að sjálfsögðu. Í fyrsta lagi er þetta bókstaflega skref upp á við, að fara úr 2.deild í 1.deild. Svo er þetta gott tækifæri fyrir mig að bæta mig sem leikmann og æfa og spila við hágæðaleikmenn."

Bjarki og Erlingur þekkjast frá fyrri tíð en saman urðu þeir Íslandsmeistarar með HK árið 2013. Bjarki segir það hafa haft áhrif á ákvörðunina. „Það gerði það já. Ég kann einstaklega vel við Erling sem þjálfara og hlakka til að vinna með honum aftur."