*

Fimmtudagur, 18. desember 2014 | Þorsteinn Haukur Harðarson | thorsteinn@sport.is | @thorsteinnhauku á Twitter

Aron Kristjánsson: Þarf að finna tímapunkt fyrir kynslóðarskipti

Mynd: Heiða

Mynd: Heiða

Landsliðsþjálfarinn Aron Kristjánsson hefur valið 20 manna æfingahóp fyrir HM í handbolta sem fram fer í janúar. Sport.is sló á þráðinn til arons og ræddi við hann um valið.

„Það er oft erfitt að velja landsliðið, sérstaklega þegar flestir leikmenn eru heilir. En ég tel að þetta sé sterkasta liðið sem völ var á núna á þessum tímapunkti," segir Aron.

Athygli vekur að hinn reynslumikli Þórir Ólafsson er ekki í hópnum. „Það eru að ganga í garð ákveðin kynslóðarskipti og það þarf að finna tímapunkt sem hentar í það. Arnór og Guðmundur Árni hafa verið að spila þessa stöðu vel auk þess sem Ásgeir Örn og Alexander geta líka spilað þessa stöðu. Ég ákvað því að velja þetta svona en veit að Þórir er til taks ef út í það fer."

Þá ætlar Sverre Jakobsson að gefa kost á sér í hjarta varnarinnar. „Ólafi Gústafssyni er ætlað stórt hlutverk í vörninni en hann gefur ekki kost á sér núna vegna meiðsla. Þess vegna ákvað Sverre að taka slaginn og og hjálpa okkur með varnarstöðuna."

Þá talar hann einnig um Tandra Konráðsson sem er í hópnum. „Tandri er leikmaður sem við getum nýtt í varnarstöðuna og hann er einnig góður í að bera upp boltann í seinni bylgju. Við erum einmitt að leita að manni í þetta hlutverk og nú fær hann tækifæri til að sanna sig."

Þrátt fyrir þetta tuttugu manna val gæti Aron enn gert breytingar á hópnum. „Það er margt sem getur gerst í undirbúningi fyrir mótið eins og meiðsli og annað. Allir leikmennirnir sem voru á 28 manna listanum eru ennþá gjaldgengir og við getum kallað þá inn ef eitthvað kemur upp á."