*

Mánudagur, 26. september 2011 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

N1-deild karla | Upphitun | Mosfellingar og Seltirningar

Mynd: Sævar Geir Sigurjónsson

Tvö síðustu N1-deildarliðin sem við beinum athyglinni að nú þegar keppni í N1-deild karla er að hefjast eru lið Aftureldingar og Gróttu.  Mosfellingar björguðu sér frá falli á síðustu stundu á síðustu leiktíð, en Grótta vann hins vegar 1.deildina með nokkuð sannfærandi hætti.  Flestir reikna með að þessi tvö lið berjist í neðri hluta deildarinnar í vetur.

Afturelding
Sæti í deild í fyrra: 7.sæti
Þjálfari: Gunnar Andrésson.
Komnir: Chris McDermott (?), Mark Hawkins (?), Davíð Svansson (Nötteröy), Helgi Héðinsson (Selfossi), Einar Héðinsson (Selfossi)
Farnir: Ásgeir Jónsson (Akureyri), Bjarni Aron Þórðarsson (Grossburgwedel, Þýskalandi), Arnar Freyr Theodórsson (Víking), Kristófer Fannar Guðmundsson (ÍR, á láni til 1. júní 2012), Hrafn Ingvarsson (hættur), Jóhann Jóhannsson (hættur), Eyþór Hilmarsson (hættur), Reynir Ingi Árnason (hættur).

Afturelding átti í basli á löngum köflum á síðustu leiktíð, en fór þó langt á baráttu og vilja.  Þeir björguðu sér frá falli með því að leggja ÍBV og Stjörnuna í umspilskeppni og áhugavert verður að fylgjast með þeim í vetur þar sem nokkrar breytingar eru á leikmannahópnum.

Mosfellingar hafa misst nokkuð sterka pósta og munar líklega mestu um Bjarna Aron Þórðarson sem á löngum köflum bar sóknarleik Aftureldingar á herðum sínum.  Bjarni reynir nú fyrir sér í Þýskalandi, Arnar Freyr Theódórsson sem oft á tíðum lét að sér kveða í sóknarleiknum og er að mörgu leyti vanmetinn leikmaður er farinn í Víking og Ásgeir Jónsson er genginn til liðs við Akureyri.  Ásgeir er öflugur varnarmaður og mikill baráttujaxl og skarð hans er vandfyllt.  Afturelding hefur fengið til liðs við tvo breska leikmenn sem áhugavert verður að fylgjast með, en Bretar hafa fram til þessa verið þekktir fyrir flest annað en að framleiða handboltamenn í löngum röðum.  Þá eru komnir í Mosfellsbæinn bræður frá Selfossi sem gætu komið þægilega á óvart.  Gunnar Andrésson hefur sýnt það og sannað að hann kann að nýta tiltölulega fámennan leikmannahóp til ágætra verka.

Afturelding verður að öllum líkindum að berjast í neðri hluta deildarinnar og það er lykilatriði fyrir þá að ná upp góðri stemmningu að Varmá og hirða stig þar af fremsta megni.  Ef litið er blákalt á hlutina er ekki ólíklegt að Afturelding og Grótta deili með sér tveimur neðstu sætum deildarinnar.

Mynd: Eyjólfur Garðarsson

Grótta
Sæti í deild í fyrra: 1.sæti í 1.deild.
Þjálfari: Guðfinnur Kristmannsson.
Komnir: Guðfinnur Kristmannsson (þjálfari, ÍR), Benedikt Reynir Kristinsson (FH), Karl Magnús Grönvold (byrjaður að æfa aftur), Ágúst Birgisson (ÍR), Lárus Helgi Ólafsson (ÍR), Þorgrímur Smári Ólafsson (ÍR), Hjálmar Þór Arnarson (á láni frá Val til 5. júní 2012)
Farnir: Matthías Árni Ingimarsson (Hauka), Ægir Hrafn Jónsson (Fram), Hjalti Þór Pálmason (FH), Sigurður Eggertsson (Fram).

Grótta vann sér sæti í N1-deildinni á síðustu leiktíð með því að spóla í gegnum 1.deildina og gerði því stuttan stans í næstefstu deild.  Grótta var nokkuð sannfærandi í 1.deildinni á síðustu leiktíð, enda mannvalið ágætt, en nú bregður svo við að sterkir leikmenn eru hornir á braut og nýr þjálfari er tekinn við liðinu.

Guðfinnur Kristmannsson á vandasamt verk fyrir höndum, ekki síst í ljósi þess að Gróttumenn hafa misst nokkuð sterka og mikilvæga leikmenn og nýir leikmenn eru lítt reyndir.  Hjalti Þór Pálmason er farinn í FH, en hann lék stórt hlutverk bæði í vörn og sókn Gróttumanna á síðustu leiktíð, stuðboltinn snarpi Sigurður Eggertsson er farinn í Fram, eins og reyndar varnarjaxlinn Ægir Hrafn Jónsson, og annar varnarsérfræðingur, Matthías Árni Ingimarsson er farinn heim í Hauka.  Hér er farið hryggjarstykkið í sigurliðinu í 1.deild á síðustu leiktíð.  Frískir fætur koma reyndar inni í staðinn, en reynslan er af tiltölulega skornum skammti og Gróttumönnum gæti reynst erfitt að hala inn stig á komandi leiktíð.

Grótta kemur að öllu óbreyttu til með að berjast í neðri hluta N1-deildarinnar og liðinu gæti reynst erfitt að hala inn stig.  Seltirningar hafa misst það marga sterka og mikilvæga leikmenn að bjartsýni fyrir þeirra hönd er af skornum skammti, en vissulega verður spennandi að fylgjast með ungum og upprennandi leikmönnum liðsins.