*

Föstudagur, 6. nóvember 2015 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

Upphitun fyrir enska – Hvenær hættir þetta rugl eiginlega?

depayÞað er stór helgi framundan fyrir liðin tvö í Norður-Lundúnum. Arsenal vantar sigur en Tottenham gæti hugsað sér gott til glóðarinnar.

Arsenal
Þetta hefur verið undarlegt tímabil hjá Arsenal. Sigur Arsenal á Bayern fyrir tveimur vikum heldur lífi í vonum liðsins um að komast upp úr riðlinum þrátt fyrir að hafa tapað þremur af fjórum leikjum sínum, nú síðast með 5-1 tapi gegn Bayern á Allianz.

Arsenal hóf tímabilið með 2-0 tapi gegn West Ham, tapaði svo enn og aftur gegn Chelsea þrátt fyrir ömurlegt gengi þeirra og féll síðan úr deildarbikarnum með 3-0 tapi gegn Sheffield Wednesday.

Þrátt fyrir allt þetta eru stuðningsmenn Arsenal almennt sáttir við stöðu liðsins. Vanalega eftir 5-1 tap hefði allt verið vitlaust en að þessu sinni var svo ekki enda engin lygi þegar bent er á að Bayern er einfaldlega með miklu miklu miklu betra lið en Arsenal í dag.

Arsenal er við hlið Manchester City á toppi deildarinnar og með sigri í næstu tveimur leikjum í Meistaradeildinni ætti liðið bókstaflega að slefa í 16-liða úrslitin.

Tap gegn nágrönnunum í Tottenham um helgina myndi þó rífa þessa gleði upp með rótum. Wenger verður að finna leið til að sigra Spurs án Walcott, Ramsey, Chamberlain og Bellerin.

Debuchy
Já Bellerin er meiddur og það þýðir bara eitt, Debuchy fær enn eitt tækifærið til að sýna hvað í honum býr.

Því miður virðist hann hafa breyst úr grjóthörðum flúruðum Iggy Pop rokkara í Rebeccu Black sem gerði garðinn frægan með einu versta fössara lagi allra tíma: Friday.

Lagið er reyndar alveg jafn fyndið og það er ömurlegt en er líka orðið af gömlum og pínu úrelltum brandara. Þetta er hætt að vera fyndið Debuchy. Rífðu þig í gang drengur.

Ég er viss um að það hlakki mikið í Christian Eriksen. Pochettino og félagar í Tottenham sjá hann örugglega sem veika punktinn í vörn Arsenal. Allavega fór meirihluta af sóknum Tottenham upp vinstri kantinn í 3-1 sigri liðsins á Aston Villa um síðustu helgi. Debuchy má eiga von á mjög erfiðum sunnudegi.

Tottenham & Harry Kane
Eftir að hafa skorað einungis eitt mark í fyrstu 12 leikjum sínum með Tottenham á þessu tímabili er Harry Kane nú búinn að skora fimm mörk í síðustu þremur leikjum sínum.

Það að Harry Kane sé aftur byrjaður að skora og að liðið sé heilt yfir að spila bara glimmrandi vel ætti að gefa Pochettino og félögum í Tottenham mikla von fyrir tímabilið. Á meðan Chelsea er að skíta upp á bak ætti Tottenham klárlega að stefna á Meistaradeildarsæti. Að kalla það raunhæft er ekki nógu sterkt orð.

Tottenham hefur ekki tapað síðan í opnunarleik tímabilsins gegn Manchester United og hefur unnið fimm af síðustu sjö leikjum sínum. Þar að auki er liðið með eina bestu vörn deildarinnar en Tottenham hefur bara fengið á sig níu mörk. Aðeins Arsenal og Manchester United hafa fengið á sig minna eða átta stykki.

Með meiðslavandræði Arsenal í huga ásamt frábæru formi Tottenham gæti þetta reynst gullið tækifæri fyrir liðið að sigra nágranna sína. Sigur um helgina og Tottenham væri einungis tveimur stigum á eftir Arsenal. Algjör veisla!

Jamie Vardy
Ellefu mörk í ellefu leikjum og hann er búinn að skora í átta leikjum í röð….Hvenær hættir þetta rugl eiginlega?

Ætli hann nái Van Nistelrooy?

Louis Van Gaal
Manchester United ákvað loksins að gera svolítið byltingarkennt í miðri viku gegn CSKA Moskvu. Þeir sóttu í alvöru á markið…Ég veit! Þeir áttu skot og markvörðurinn varð að verja og allt saman!

Ok þetta var ekki í alvöru byltingarkennt en eftir að hafa horft á Manchester United á þessu tímabili þá leið mér eins og ég væri steinaldarmaður sem þekkti ekki einu sinni fyrirbærið eld að sjá eldavél í fyrsta sinn.

,,Hvað í fjandanum er þetta og af hverju hef ég ekki séð þetta áður?”

Í fyrri hálfleik átti Manchester United fleiri skot á mark en liðið átti í 180 mínútum gegn Crystal Palace og Manchester City til samans. Van Gaal ætti virkilega að íhuga að hætta að elda lambalærið með kerti og fara að nota þessa eldavél oftar.

Sigurinn gegn CSKA Moskvu verður samt ansi þýðingarlítill haldi dræmar frammistöður lærisveina Van Gaal áfram. Ég veit að liðið er í fjórða sæti, sem er í sjálfu sér ekki slæmt, en ef ég fengi boð um að taka maraþon og horfa á alla leiki Utd á þessu tímabili í röð fyrir 10 milljónir króna þá myndi ég í það minnsta hika og líklega segja bara nei takk.

Stuðningsmenn liðsins eru líka greinilega að fá nóg. Fyrir leik sungu þeir ,,Attack, attack, attack” og svo bauluðu þeir hressilega er Martial var tekinn út af fyrir Fellaini eftir einungis klukkutímaleik.

Ég skil þá bara mjög vel. Þetta er orðið mjög þreytt.

Memphis Depay
Fólk og fjölmiðlar eru byrjaðir að bera hann saman við Ravel Morrison. Semsé jafn hæfileikaríkur og hann er vitlaus. Í þokkabót er hann ekki í landsliðshópi Hollands og hefur fengið fá tækifæri upp á síðkastið hjá Van Gaal.

Memphis Depay hefði rosalega gott af því að fá tækifæri um helgina og nýta það vel. Stoðsending, mark eða bara ná að taka menn á og fara í alvöru framhjá þeim væri skref fram á við.

Hann ætti allavega að hætta svona skrípaleik. Í guðanna bænum!

Manchester City
Sigur gegn Aston Villa og þú heldur toppsætinu. Held að það sé ekki hægt að biðja um mikið betri díl.

Liverpool & Jurgen Klopp
Þrír sigrar í röð undir Klopp. Nú er bara að halda ferðinni áfram gegn Crystal Palace sem hefur vægast sagt leikið Liverpool grátt á undanförnum árum.

Síðasti heimaleikur Gerrard nú í vor og 3-3 leikurinn frægi renna seint úr minni stuðningsmanna. En Klopp á að koma með nýja tíma og Liverpool á einfaldlega að sigra lið á borð við Crystal Palace á heimavelli sínum.

Svo vantar Klopp auðvitað enn þá fyrsta deildarsigur sinn á Anfield.

Over to you Klopp.

P.s: Ef þetta er ekki það krúttlegasta sem þú hefur séð þá veit ég ekki hvað: ,,Ibee!”

Chelsea & Jose Mourinho
Það vill engin neyðast til að fara á Brittana völlinn þegar hann er að berjast fyrir lífi sínu en Móri verður hinsvegar að gera það um helgina. Sumstaðar er sagt að Abramovic ætli að nýta sér landsleikjahléið til þess að finna nýjan stjóra. Hvort sem það sé rétt eða ekki þá breytir það því ekki að Móri sárvantar stig.

Móri og félagar geta þó huggað sig við að Stoke hefur verið óvenju gestrisið það sem af er vetri. Eina liðið sem hefur beðið ósigur á Brittania, fyrir utan auðvitað Stoke, er Bournemouth.

Slæmu fréttirnar eru hinsvegar að Stoke er á fínni siglingu með þrjá sigra í síðustu fimm leikjum liðsins í Úrvalsdeildinni. Chelsea er með einn í síðustu fimm og þrjú töp

Maður hugsar í hverri viku: ,,Þetta getur ekki orðið mikið verr. Þetta hlýtur að stoppa núna. Hann hlýtur að rífa liðið í gang í þetta sinn," en í hvert skipti fer maður með kolrangt mál.

Tapar Chelsea gegn Stoke? Ég veit það ekki en það kæmi líklega engum á óvart...Við erum að tala um ríkjandi englandsmeistara...Úfff

West Ham
Það er ekkert slys að West Ham hefur á tímabilinu unnið Arsenal, Liverpool, Chelsea og Manchester City. Það er heldur ekkert slys að sama lið hefur tapað gegn Leicester, Watford og Bournemouth ásamt því að gera jafntefli gegn Sunderland og Norwich.

West Ham elskar leiki þar sem liðið getur legið til baka og keyrt á andstæðingin með skyndisóknum eins og liðið gerði gegn stóru liðunum. Arsenal, City, Chelsea og Liverpool fengu svo sannarlega að finna fyrir þessum frábæru skyndisóknum.

Í þeim leikjum sem hinsvegar er ætlast til að West Ham stjórni leiknum virðast leikmenn liðsins ekki vita hvað þeir eiga að gera.

Um helgina spilar West Ham við Everton. Ég myndi búast við jöfnum leik og ef ég væri Bobby Martinez, þjálfari Everton, þá væri ég að hugsa um að liggja svolítið til baka og beita skyndisóknum.

Eða í öðrum orðum…Nákvæmlega það sem West Ham virðist ekki geta höndlað.

Bournemouth
Tap um helgina gegn Newcastle myndi setja nýliðana í fallsæti. Ef þeir lenda þar þá myndi ég búast fastlega við því að þar muni þeir vera.

Þetta er einfaldlega ekki nógu gott lið fyrir Úrvalsdeildina. Því miður.

Newcastle
Sigur og Newcastle er komið úr fallsæti. Það er hinsvegar sjaldan svo einfalt hjá þeim svart-hvítu. Ég meina hversu týpískt væri það ef Newcastle myndi tapa klaufalega um helgina gegn nýliðum sem hafa tapað fjórum af síðustu fimm leikjum sínum.

Mjög týpískt…Sérstaklega þar sem stuðningsmenn félagsins þurfa að taka á sig sex klukkutíma ferðalag sem jafnframt er lengsta ferðalag helgarinnar, til að sjá hádegisleik. Stuðningsmennirnir verða að leggja af stað fyrir klukkan sex um morguninn ætli þeir sér að sjá leikinn.

Eins gott að leikmenn liðsins girði sig í brók. Þeir eru ekki vanir því þessa daganna að eiga við einhverja ,,skyldusigra."

Sunderland
Skítsæmileg sókn. Hörmuleg vörn. Fínt að skora tvö mörk. Hörmulegt að fá á sig sex.

Ekki gleyma því að verjast gegn Southampton um helgina. Þetta  endaði ansi illa um síðustu helgi.

Norwich Fimm tapleikir í röð og sjö leikir án sigurs. Það segir sig sjálft að liðið verður að vinna leik og það sem fyrst. Swansea kemur í heimsókn um helgina og Norwich sárvantar þrjá punkta.

Swansea Einn sigur í síðustu sjö leikjum og það var gegn Aston Villa…..það vinna allir Aston Villa, þó svo að markið hans Gylfa hafi auðvitað verið gullfallegt. Fyrri hálfleikur liðsins gegn Arsenal um síðustu helgi var mjög góður og hefði liðið verið eilítið beittara hefði Swansea hæglega getað verið með tveggja marka forystu í hálfleik. Það er eitthvað til að byggja ofan á og um að gera fyrir Gylfa og félaga að næla í þrjú stig gegn Norwich.

Rémi Garde ,,Ég er ekki töframaður. Ég hef sterkar hugmyndir en ef ég héldi að ég gæti ekki breytt gengi liðsins þá hefði ég sagt nei, þetta starf er ekki fyrir mig,“ sagði Rémi Garde, nýráðinn stjóri Aston Villa. Ég held að ég skrifi fátt oftar en að lið X hafi einungis einn sigur í X mörgum leikjum og það hafi verið gegn Aston Villa. Ég skrifaði það meira að segja hér rétt fyrir ofan. Aston Villa hefur tapað sjö leikjum í röð og er einungis með eitt stig úr síðustu tíu leikjum sínum og það var gegn Sunderland. Það fá allir a.m.k. eitt stig gegn Sunderland.... Nema kannski Newcastle. Rémi Garde verður að galdra eitthvað fram um helgina ætli hann að komast hjá áttunda tapi liðsins í röð. En þegar Manchester City mætir í heimsókn ætla ég að leyfa mér að gerast svo djarfur að giska á City sigur. Þvílík eldskírn

Lestu allt um enska boltann hér.