*

Miðvikudagur, 24. júní 2015 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

Plús og mínus – Touré-lagið vinsælt í Kópavogi

BreiðablikBreiðablik og Selfoss mættust í toppslag Pepsi deildar kvenna í kvöld og endaði leikurinn með sigri Breiðabliks sem er nú með fjögurra stiga forskot á Selfoss.

Eina mark leiksins kom undir lok fyrri hálfleiks úr vítaspyrnu sem var vægast sagt vafasamur dómur.

Breiðablik gerði þó vel í að halda gestunum í skefjum en hér fyrir neðan má sjá það jákvæða og neikvæða við leik kvöldsins.

Breiðablik 1-0 Selfoss (1-0)
1-0 Fanndís Friðriksdóttir (v) 43. mín.

Plúsar:
Stuðningsmenn beggja liða voru háværir og flottir. Sérstaklega stuðningsenn Blika sem voru, af einhverjum ástæðum, mjög duglegir að syngja Kolo og Yaya Toure lagið. Það er reyndar ógeðslega grípandi þannig ég kvarta ekki of mikið.

Breiðablik átti ekki að fá vítaspyrnuna sem leiddi að sigrinum (nánar um það hér fyrir neðan) en engu að síður var nóg eftir af leiknum. Blikastúlkur héldu Selfyssingum algjörlega í skefjum allann seinni hálfleikinn og þar að auki sköpuðu þær bestu færi leiksins. Ekki verðskuldað mark en verðskuldaður sigur engu að síður. 

Breiðablik er nú búið að vinna fjóra leiki í röð með markatöluna 13-0. Geri aðrir betur. Þær eru að gera sig mjög líklegar til að lyfta dollunni í haust.

Mínusar:
Ég er ekki mikið fyrir að lasta dómara enda vitum við öll og allir að dómgæsla er alls ekkert auðvelt starf. Að því sögðu þá var samt vítaspyrnudómurinn að mínu mati kolrangur og ég var alls ekki einn um þá skoðun. Ákvörðun sem gæti reynst afdrífarík þegar líður á mót.

Það var ekki bara vítaspyrnan. Leikmenn sluppu við gul spjöld við ótrúlegustu hluti. Tveggja fóta tækling er í það minnsta spjald, sér í lagi þegar hún fer ekki nálægt boltanum, og það er spjald ef þú stoppar sókn með því að keyra eða toga í andstæðing án þess að reyna við boltann. Taktu þetta sem vinalegri ábendingu. (Ef þú lest þetta þeas)

Sóknarleikur Selfyssinga var gífurlega hugmyndalaus í seinni hálfleik. Vissulega óréttlæti að fá á sig þessa vítaspyrnu en það er nóg eftir þegar heill seinni hálfleikur er eftir.

Selfoss er nú fjórum stigum á eftir Breiðablik. Þetta tap gæti reynst þeim dýrt.