Laugardagur, 18. ágúst 2012 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

Enski boltinn | Aron og Heiðar unnu fyrsta leik Championship deildarinnar

Aron Einar að farast úr fögnuði og ætlar að stökkva á Hudson

Mynd: walesonline.co.uk

Landsliðsfyrirliðinn grjótharði Aron Einar Gunnarsson og íþróttamaður ársins Heiðar Helguson spiluðu allan tímann í gærkvöldi þegar lið þeirra, Cardiff City, vann frábæran 1-0 sigur gegn Huddersfield í fyrsta leik tímabilsins í ensku Championship deildinni í knattspyrnu. Aron Einar lék á miðri miðjunni og Heiðar var í fremstu víglínu ásamt kórdrengnum Craig Bellamy.

Það leit allt út fyrir markalaust jafntefli í þessum fyrsta leik, á heimavelli í þokkabót, þegar Mark Hudson kom velska liðinu til bjargar í uppbótartíma en sigurmark hans kom á 91.mínútu. Aron Einar hitti ekki boltann í upplögðu færi en liðsfélagi hans var svo sannarlega betri en enginn fyrir aftan hann, klár í slaginn.

Mark Hudson kláraði færið eins og heimsklassa sóknarmaður myndi gera á ögurstundu og fagnaðarlæti Cardiff voru einlæg og skiljanleg. Mikilvægt að byrja tímabilið vel og það er ljóst að liðið ætlar sér upp í eitt skipti fyrir öll. Cardiff hefur verið að misstíga sig í umspilinu í lok leiktíðar og nú ætla menn sér upp, helst án umspils.