*

Laugardagur, 18. ágúst 2012 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

Borgunarbikarinn | Hugleiðingar fyrir úrslitaleikinn

Mynd: Tengist fréttinni ekki beint

Þegar klukkan slær 16:00 í dag mætast tvö góð fótboltalið í úrslitaleik Borgunarbikars karla í knattspyrnu. Stjörnumenn eru að ganga inn á leikvanginn í þessum tilgangi í fyrsta skipti á meðan KR-ingar eru að stíga sporin í 17.sinn. Vissulega hefur enginn leikmaður KR-liðsins spilað þessa 16 úrslitaleiki sem liðið hefur spilað áður, en saga félagsins ætti að hjálpa þeim. Eða hvað?

Stjörnumenn eru þekktir fyrir skemmtileg fögn, leiftrandi sóknarbolta og almenn skemmtilegheit Silfurskeiðarinnar í stúkunni. Svo hafa þeir skemmtikraftinn KáJoð innan sinna raða sem rappar alla í gang fyrir utan Aktu Taktu rétt fyrir leik, þar sem Garðatorg er lokað vegna viðhalds.

KR-ingar eru þekktir fyrir Bjarna Fel, Vesturbæjarís, 25 Íslandsmeistaratitla (þar af nokkra ekki í lit), 12 bikarmeistaratitla og Miðjuna í denn.

Ef leikmenn Stjörnunnar setja kassann upp í loft og keyra hausinn ekki niður í bringu gegn Íslands- og bikarmeisturum KR, þá eiga þeir klárlega heilmikinn séns í leiknum í dag. Þeir hafa sparað sig í síðustu leikjum til að vera klárir í þennan leik. Sömu sögu er að segja af Vesturbæjarliðinu, ótrúlegt en satt.

Liðin ætla sér sigur í stærsta leik ársins sem er nú loksins kominn aftur á þann stað sem hann á heima, á miðju tímabili, en ekki í snjókomu rétt fyrir þorláksmessu eins og þetta var hér fyrir örfáum árum síðan.

Stjarnan vann Gróttu, Reyni Sandgerði, Fram og Þrótt samanlagt 10-2 til að komast í úrslitaleikinn og KR vann ÍA, Breiðablik, ÍBV og Grindavík samanlagt 8-2 til að komast á sama stað. Þessi atriði skipta samt nákvæmlega engu máli þegar Þóroddur Hjaltalín Jr. flautar til leiks kl. 16:00 á þjóðarleikvangnum í dag.

Bæði liðin hafa áunnið sér þann rétt að spila á stóra sviðinu og það verður virkilega gaman að sjá hvort liðið hefur betur í baráttu dagsins, jafnt á vellinum sem og í stúkunni. Auð sæti verða einhver, þar sem leikvangurinn er stór og stúkurnar taka fleiri heldur en eðlilegt er að áætla að mæti á leikinn. En þetta verður flottur leikur og flottur dagur.

Mun KáJoð „átbattla" Bjarna Fel? Ég veit það ekki. Mun Silfurskeiðin rúlla Miðjunni upp? Ég veit það ekki. Mun Garðatorg hýsa tryllta Garðbæinga ef sigur vinnst í leiknum í dag? Ég veit það ekki. Verður KR bikarmeistari í 13.sinn? Ég veit það ekki.

Ég veit þó það að leikurinn verður frábær skemmtun. Blóð, sviti og tár (lesist: Tár, bros og takkaskór) og sokkarnir upp!

Allir á völlinn kl. 16:00, góða skemmtun!