*

Laugardagur, 11. ágúst 2012 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

Hinsegin dagar | Sandra Sigurðardóttir: „Verið þið sjálf!"

Mynd: Úr einkasafni

Í dag er haldinn með pompi og prakt Hinsegin dagar eða Gay Pride sem eru baráttudagar samkynhneigðra. Í tilefni af deginum er ekki úr vegi að spjalla við leikmann í fótboltanum en sú sem um ræðir hefur hampað Íslandsmeistaratitli í knattspyrnu, leikið í atvinnumennsku erlendis og verið einn af aðalmarkmönnum íslenska landsliðsins í knattspyrnu.

Við erum að tala um Söndru Sigurðardóttur sem hefur ekki farið leynt með samkynhneigð sína en hún er stolt að vera sú sem hún er. Sandra var að eignast barn með sinni heittelskuðu sem er handboltakonan Hafdís Inga Hinriksdóttir sem var í fremstu röð í handboltanum.

Við fengum okkur kaffibolla með Söndru þar sem hún ræddi opinskátt um samkynhneigðina og hvernig það er og var að koma út, eins og Sandra orðar það sjálf, sem íþróttamanneskja. En hvar og hvenær byrjaði íþróttamennskan hjá Söndru?

„Ég byrjaði svona 5-6 ára í fótbolta á Siglufirði og fór svo að æfa skíði umþ.b. ári seinna líka," segir Sandra sem snemma fór að að æfa íþróttir.

En hvenær fór hún að gera sér grein fyrir því að hún væri lesbía?
„Ætli ég hafi ekki verið svona 18-19 ára og í rauninni komu þessar pælingar á „óvart" þar sem  ég hafði ekki hugsað svona áður. Ég sem sagt heillaðist af stelpu sem ég hélt reyndar að væri strákur fyrst og við fórum eitthvað að spjalla og þó svo að hún væri stelpa að þá lét ég það ekki stoppa mig. En það flækti málin örlítið og svo fór bara hausinn á fullt í pælingum eftir það."

Sandra segir það ekki ekki hafa verið vandamál að koma út í því umhverfi sem hún var í. Aðrar konur höfðu fetað þessa braut áður og þannig séð auðveldað þeim sem á eftir komu að koma út. „Nei alls ekki. Innan kvennaknattspyrnunnar voru mörg andlit komin út þannig að þetta var þekkt og gerði þetta í rauninni bara auðveldara ef eitthvað var. Það að vera í íþróttum og koma út fannst mér í raun auðveldara heldur en að vera að segja frá og koma út gagnvart öðru fólki, þó svo að það hafi heldur ekki verið erfitt hjá mér þannig lagað," segir Sandra og segir að hún hafi frekar fengið stuðning frá sínu umhverfi en fordóma. „Klárlega stuðning frekar en hitt, fólk tekur mér bara eins og ég er alveg sama hvort ég var með kærasta eða kærustu. Breytti því ekkert hvernig ég er eða hver ég er þannig að það hafði ekki áhrif á annað fólk, allavega hef ég ekki fundið neitt ennþá. Og í dag á ég mína konu og tvö börn og þannig er Sandra og sú mynd sem fylgir mér og það vita flestir og taka því vel."

Það var aldrei þannig að Sandra þurfti að fela fyrir sínum liðsfélögum hver hún var og er. Hennar vinkonur voru með henni í liði og studdu vel við bakið á henni. Hún þurfti því alls ekki að fela kynhneigð sína fyrir neinum. „Nei í rauninni ekki. Á þeim tíma sem ég er að byrja mínar pælingar og að koma út á ég mínar bestu vinkonur í fótboltanum og þær fóru í gegnum þetta ferli með mér og studdu mig í gegnum það allt. Hinar tóku því síðan bara mjög vel þegar allt var komið uppá yfirborðið, hvort sem að þær grunaði þetta eða ekki en þá var þessu bara tekið rosa vel og ég sjálf glöð og það er nú það sem skiptir mestu máli í þessu öllu saman."

Sandra segir tímana ekki hafa breyst mikið á hennar tíma sem leikmaður í fremstu röð.
„Breyst og ekki breyst?  Jú auðvitað eitthvað þar sem  okkar barátta hefur tekið risaskref og þetta er bæði orðið mun algengara eða í raun bara mun opnara og meira uppá yfirborðinu. Í dag þora stelpur og strákar í samfélaginu að koma út og því er í flestum tilfellum tekið vel. Það eru samkynhneigðar stelpur í fótboltanum nánast í hverju liði og í öðrum íþróttum og á öðrum sviðum líka þó það sé einhvern veginn opnara og meira uppá yfirborðinu í fótboltanum eins og er. „

En hvað vill Sandra segja við þá aðila sem mögulega þora ekki að játa kynhneigð sína vegna ótta við fordóma. „Hlusta á hjartað, vera óhrædd – það er enginn það yfir ykkur hafin að þið getið ekki verið þið sjálf!!"