*

Föstudagur, 27. júlí 2012 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

Borgunarbikar kvenna | Valur og Stjarnan í úrslit | Dramatík í Garðabænum

Mynd: Sport.is

Í kvöld fóru fram tveir hörkuleikir í undanúrslitum Borgunarbikars kvenna í knattspyrnu. Í Vesturbæ Reykjavíkur áttust við tvö stórveldi úr höfuðborginni, KR og Valur. Í Garðabænum tók Stjarnan svo á móti Þór/KA.

KR 0 – 2 Valur (0-0)
0-1 Johanna Rasmussen 50.mín.
0-2 Rakel Logadóttir 90.mín.

Ljóst var í upphafi leiks í Vesturbænum að mikið var undir og allt lagt í sölurnar. Valsliðið var þó öllu sterkara enda búnar að vera töluvert betri í sumar en þegar á þennan stað í keppninni er komið skiptir deildartaflan ekki öllu máli. Þetta snýst um vilja og kraft til að klára dæmið.

Valsstúlkur voru mun meira með boltann allan leikinn og sköpuðu sér fleiri og betri færi heilt yfir. KR-stúlkurnar voru þó ekkert á því að gefast upp eftir að hafa fengið á sig mark í upphafi síðari hálfleiks. Guðrún María Johnson, miðjumaðurinn kraftmikli í liði KR, sýndi á köflum kröftuga varnartilburði. Góður dómari leiksins, Leiknir Ágústsson, sá til þess að allur sá pirringur sem var við það að myndast, varð að engu. Valsliðið hafði betur á öllum stöðum vallarins eftir markið góða sem Johanna Rasmussen skoraði á 50.mínútu. KR-liðið gerði engu að síður heiðarlegar tilraunir til að mynda sóknir en þær tilraunir strönduðu oftast áður en í vítateig var komið. Olga Kristina Hansen, í liði KR, átti til að mynda frábært skot af 30 metra færi á 80.mínútu en góður markvörður ValsBrett Elizabeth Maron, átti stórbrotna markvörslu, í samskeytunum. Valsarar áttu um miðjan síðari hálfleik sín færi og voru hættulegri aðilinn allan tímann. Á 86.mínútu fékk Anna Garðarsdóttir, sóknarmaður KR, hins vegar dauðafæri til að jafna leikinn og tryggja mögulega framlenginu en aftur sá Brett Elizabeth Maron við henni og varði í horn. KR-stúlkur voru orðnar þreyttar eftir að hafa reynt allt hvað þær gátu til að jafna leikinn og eitthvað varð undan að láta. Valsstúlkur nýttu sér í kjölfarið glufurnar í vörn KR-liðsins á lokametrunum og Rakel Logadóttir skoraði mark á 90.mínútu sem varð til að gulltryggja sæti Valsstúlkna í úrslitaleiknum.

———————

Mynd: Eyjólfur Garðarsson

Stjarnan 2 – 1 Þór/KA (1-0) (1-1)
1-0  Harpa Þorsteinsdóttir 22.mín.
1-1 Sandra María Jessen 54.mín.
2-1  Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir 106.mín.

Líkt og í Vesturbænum var mikið í húfi, enda ljóst að sigurvegararnir í þessum leik í Garðabænum myndu spila úrslitaleik Borgunarbikarsins á Laugardalsvelli þann 25.ágúst. Stjörnustúlkur voru mun öflugri á upphafsmínútum leiksins og þannig hélst það allt fram að hálfleik. Harpa Þorsteinsdóttir skoraði gott mark á 22.mínútu og kom Stjörnustúlkum þar með yfir, 1-0. Sandra María Jessen, sú unga og efnilega landsliðsstúlka, skoraði glæsilegt jöfnunarmark á 54. mínútu. Þarna voru leikar jafnir og leikurinn opinn í báða enda. Þrátt fyrir fín færi og tilraunir beggja liða fram að 90.mínútu var framlenging óumflúin og þar með öðrum 30 mínútum bætt við leikinn, enda leikið til þrautar í bikarleikjum.

Stjarnan var líklegra til að skora í fyrri hálfleik framlengingar en náðu því þó ekki og liðsmenn Þórs/KA voru ekki líklegar á þessum tímapunkti. Sigurmark leiksins kom á upphafsmínútum síðari hálfleiks framlengingar en það var Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir sem tryggði Stjörnustúlkum farseðilinn í úrslitaleikinn með góðu marki á 106. mínútu. Leikmenn Þórs/KA gáfu allt sitt í verkefnið þær 14 mínútur sem eftir voru af leiknum en allt kom fyrir ekki og sanngjarn sigur Stjörnunnar því staðreynd. Tæpara mátti það þó varla vera og eftir mikla baráttu voru norðanstelpur 14 mínútum frá vítaspyrnukeppni.

Það verða sumsé Valur og Stjarnan sem leika til úrslita í Borgunarbikar kvenna þann 25.ágúst næstkomandi.

Myndir: Eyjólfur Garðarsson.